Erlent

Virtu öryggistilmæli að vettugi

Hrun Þúsundir manna þustu á vettvang þar sem átta hæða hús hrundi. Hátt í hundrað manns höfðu verið úrskurðaðir látnir í gær en sú tala gæti hafa hækkað. frÉTTABLAÐIÐ/ap
Hrun Þúsundir manna þustu á vettvang þar sem átta hæða hús hrundi. Hátt í hundrað manns höfðu verið úrskurðaðir látnir í gær en sú tala gæti hafa hækkað. frÉTTABLAÐIÐ/ap
Eigendur verksmiðjuhúsnæðis í nágrenni Dhaka í Bangladess sem hrundi í gær eru grunaðir um að hafa virt tilmæli yfirvalda að vettugi þegar þeir sendu hundruð manna þar til vinnu í gær.

Um hundrað manns voru taldir af í gær og mörg hundruð voru sár eftir að húsið hrundi. Talið var að um tvö þúsund manns hafi verið þar inni þegar ósköpin dundu yfir. Í húsinu voru fjórar verksmiðjur sem framleiddu fatnað, meðal annars fyrir keðjurnar Benetton og Children‘s Place.

Eftirlitsstofnanir höfðu lokað húsinu vegna þess að stórar sprungur höfðu myndast í veggjum þess, en yfirmenn í verksmiðjunum sendu fólkið engu að síður til vinnu og fullyrtu að engin hætta væri á ferðum.

Innanríkisráðherra Bangladess lofaði því, í samtali við fjölmiðla á vettvangi, að sökudólgunum yrði refsað.

Atburðir sem þessir eru nokkuð algengir í Bangladess, þar sem mörg hús eru byggð í trássi við byggingarreglugerðir og öryggisstaðla. Aðstæður í fataverksmiðum landsins komust í hámæli fyrir um fimm mánuðum þegar 112 manns létust í eldsvoða í verksmiðju í borginni Tazreen. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×