Innlent

Kýrskýrt að FBI var hér í heimildarleysi

Stígur Helgason skrifar
Össur og Ögmundur voru sammála um að koma þyrfti FBI úr landi.
Össur og Ögmundur voru sammála um að koma þyrfti FBI úr landi.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fellst ekki á „varnir ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara" í máli tengdu komu FBI hingað til landsins sumarið 2011. Þeir Ögmundur Jónasson hafi komið FBI úr landi til að vernda ungan íslenskan pilt.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra voru sannfærðir um að fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar FBI væru hér á landi í heimildarleysi sumarið 2011 að rannsaka málefni Wikileaks. Þeir komu því til leiðar að þeir færu úr landi, ekki síst til að vernda hagsmuni íslensks pilts sem FBI var komið hingað til að ræða við.

„Innanríkisráðherra hafði samband við mig og tjáði mér málavöxtu þann sama morgun og hann varð þess áskynja að þessir menn væru hér – og það var alveg klárt að hann hafði enga hugmynd um það fyrr," segir Össur um málið.

„Hann leitaði ráðlegginga hjá mér og mínum ráðuneytisstjóra og við töldum það algjörlega kýrskýrt, eins og málið var lagt upp við okkur, að FBI væri hér í heimildarleysi.

Ráðlegging okkar var mjög ljós: Við töldum að þetta væri utan við það sem rétt væri og við töldum þar að auki að drengurinn sem málið snerist um gerði sér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir hann að ræða með þessum hætti hugsanlega þátttöku sína í athæfi af þessu tagi. Innanríkisráðherra var okkur algjörlega sammála," segir Össur.

„Þess vegna töldum við í utanríkisráðuneytinu að það bæri að koma í veg fyrir þessi samtöl, meðal annars til að vernda þennan íslenska borgara, af því samtölin áttu sér stað utan við það sem gátu talist eðlilegar heimildir. Okkur var ekki kunnugt um neina slíka beiðni, um að ræða við þennan mann."

Ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri sendu frá sér samantekt um málið í gær, þar sem sagði að samstarfið hefði verið vegna grunsemda um yfirvofandi árás alþjóðlegra þrjóta á tölvukerfi Stjórnarráðsins og að rannsóknin stæði enn. Þá sagði að innanríkisráðuneytið hefði haft aðkomu að því á öllum stigum.

Össur er ekki sáttur við útskýringar embættanna. „Eins og ég skil varnir ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara í þessu máli þá líta þeir svo á að atburðirnir í ágústlok séu tengdir komu sérfræðinga hingað meira en mánuði fyrr, þegar talið var að yfirvofandi væri einhvers konar tölvuárás á íslenskar stofnanir. Ég fellst ekki á þá skýringu. Ég tel að þar sé um alls óskyldan atburð að ræða," segir ráðherrann.

„Það er eitt að kanna yfirvofandi árásir og viðbúnað íslenskra stofnana gagnvart þeim – við höfðum verið vöruð við því opinberlega, Kristinn Hrafnsson benti meðal annars á það hálfu ári fyrr að örygginu væri áfátt – en það er allt annað að rannsaka einhvern dreng sem taldi sig búa yfir upplýsingum sem vörðuðu Wikileaks," segir Össur.

Ögmundur Jónasson er staddur í Kína ásamt helstu embættismönnum innanríkisráðuneytisins og ekki náðist tal af þeim vegna málsins í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×