Innlent

Borgarar EES-ríkja þurfa nú ekki að sækja um heimild til fasteignakaupa

Jóhannes Stefánsson skrifar
Útlendingum eru nú ekki eins þröngar skorður settar vilji þeir kaupa fasteign í miðborg Reykjavíkur eða annars staðar á landinu. Fréttablaðið/GVA
Útlendingum eru nú ekki eins þröngar skorður settar vilji þeir kaupa fasteign í miðborg Reykjavíkur eða annars staðar á landinu. Fréttablaðið/GVA
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tilkynnti á ríkisstjórnarfundi í dag að reglugerð um eignar- og afnotarétt útlendinga hér á landi yrði felld úr gildi. Reglugerðin var sett í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar og tók gildi 17. apríl síðastliðinn.

Hún fól í sér að ríkisborgarar landa á EES-svæðinu þurftu að sækja um heimild til ráðherra til að mega kaupa fasteign hér á landi.

„Ég tel að sú reglugerð sem tók gildi í apríl síðastliðnum samræmist ekki þeim réttindum og skyldum sem við erum aðilar að í gegnum EES-samninginn,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.





Hanna Birna Kristjánsdóttir
Reglugerðin á gráu svæði

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafði dregið lögmæti reglugerðarinnar í efa og óskað eftir formlegum rökstuðningi á því hvernig hún samræmdist ákvæðum EES-samningsins.

„Reglugerðin var á gráu svæði, enda njótum við Íslendingar þeirra réttinda sem samningurinn veitir okkur vegna fasteignakaupa í öðrum löndum og getum þess vegna ekki undanskilið okkur þeim skyldum gagnvart íbúum annarra EES-landa,“ segir Hanna Birna.



Ögmundur Jónasson
Sýna linkind í málinu

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, gagnrýnir vinnubrögð Hönnu Birnu í málinu. „Sannast sagna kemur þetta mér mjög á óvart, ekki vegna þess að ég undrist að núverandi innanríkisráðherra sé þessarar skoðunar heldur vegna þess hvernig að þessu er staðið,“ segir Ögmundur. „Venjan er að kynna reglugerðir. Núna er okkur sagt frá því í kvöldfréttum að þetta sé orðið að veruleika án nokkurrar kynningar,“ bætir hann við.

Ögmundur segir takmarkanir á möguleikum útlendinga til að eignast fasteignir hér á landi hafa verið framfaraskref. „Ég er andvígur þessari breytingu, sem ég tel viðsnúning frá mjög jákvæðu skrefi sem þarna var stigið af minni hálfu og fyrrverandi ríkisstjórnar,“ segir Ögmundur.

Þá telur hann núverandi ríkisstjórn sýna mikla linkind í málinu með því að fella reglugerðina úr gildi vegna athugasemda ESA án þess að láta reyna á lögmæti hennar.

„Þá hefði ég nú haldið að það hefði verið rétt að huga að okkar hagsmunum og láta steyta á þessu og láta á það reyna, í stað þess að lyppast niður við fyrsta andbyr,“ segir Ögmundur Jónasson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×