Innlent

Ríkið aðstoði gjaldþrota fólk

Freyr Bjarnason skrifar
Eygló Harðardóttir ætlar að leggja fram frumvarp sem snýr að kostnaði einstaklinga við gjaldþrot.
Eygló Harðardóttir ætlar að leggja fram frumvarp sem snýr að kostnaði einstaklinga við gjaldþrot.
Frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem snýr að kostnaði einstaklinga við gjaldþrot er efnislega tilbúið og er nú á borði fjármálaráðuneytisins í hefðbundnu kostnaðarmati.

Síðasti dagur til að leggja frumvarpið fyrir Alþingi er í dag og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er Eygló staðráðin í því að ná því í gegn.

Frumvarpið kveður á um að ríkisvaldið aðstoði þá einstaklinga sem eru ekki í fjárhagslegri stöðu til að greiða þær 250.000 krónur sem þarf til að fara í gjaldþrot. Ekki stendur til að fella upphæðina niður. Hjón sem vilja fara í gjaldþrot þurfa því að greiða hálfa milljón króna, sem mörgum hefur reynst óyfirstíganleg.

Þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna var lögð fram í sumar. Einn liður í ályktuninni snerist um að kanna hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu og hafa velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið unnið að málinu.

Hjá héraðsdómum landsins hefur uppkveðnum gjaldþrotaúrskurðum einstaklinga fjölgað úr 185 á árinu 2011 í 291 á árinu 2012, samkvæmt ársskýrslu Dómstólaráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×