Innlent

Björn Bjarnason vill breyta útvarpshúsinu í lögreglustöð

Jakob Bjarnar skrifar
Björn Bjarnason: Miðað við legu útvarpshússins á höfuðborgarsvæðinu og gerð mundi húsið henta vel sem höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
Björn Bjarnason: Miðað við legu útvarpshússins á höfuðborgarsvæðinu og gerð mundi húsið henta vel sem höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
Fyrrum dóms- og menntamálaráðherra setur fram hugmynd á bloggi sínu sem gæti slegið tvær flugur í einu höggi; leyst vanda Ríkisútvarpsins sem og húsnæðisvanda lögreglunnar.

Björn Bjarnason segir frá því að þegar hann gegndi embætti menntamálaráherra hafi stjórnendur ríkisútvarpsins talið lífsspursmál að komast í hið mikla útvarpshús við Efstaleiti en Páll Magnússon vilji nú selja það. Og ef það kæmist nú til framkvæmda, hvað skal þá gera við húsið? Björn kann svör við því: „Miðað við legu útvarpshússins á höfuðborgarsvæðinu og gerð hússins með miklum geymslum fyrir tæki og tól auk góðs rýmis umhverfis það mundi húsið til dæmis henta vel sem höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þar færi einnig vel um samhæfingarstjórn almannavarna, fjarskiptadeild lögreglu, neyðarlínuna auk vakstöðvar siglinga.“

Þá bendir Björn á að Reykjavíkurborg vilji breyta Hlemmi í þágu skapandi greina og með því hljóti að vakna áhugi fjárfesta á að nýta lögreglustöðina við Hverfisgötu í þágu þjónustu af einhverju tagi eða reisa nýtt hús á reitnum – „þarna er einnig kjörinn staður fyrir Listaháskóla Íslands sem vill vera í hringiðu miðborgarinnar.“

Ómar Ragnarsson er annar bloggari sem fjallar um útvarpshúsið í fróðlegum pistli. Hann bendir til að mynda á að húsið sé sex hæða. „Sex hæðir, já, 6 hæðir! Sumir skilgreina hæðina sem bílakjallarinn er í sem kjallara, en undir þeim kjallari er annar kjallari, ótrúlegt en satt, sem er nokkurs konar leynihæð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×