Lífið

Flakkaði á milli heimsálfa í leit að rétta dansherranum

smellpassa saman Telma Rut Sigurðardóttir og Javier Fernandez ætla að spæna upp dansgólfið í laugardalshöll um helgina en þau hafa dansað saman síðan í ágúst. Fréttablaðið/valli
smellpassa saman Telma Rut Sigurðardóttir og Javier Fernandez ætla að spæna upp dansgólfið í laugardalshöll um helgina en þau hafa dansað saman síðan í ágúst. Fréttablaðið/valli
„Ég held að ég hafi aldrei passað svona vel saman við neinn dansherra áður,“ segir dansarinn Telma Rut Sigurðardóttir sem ætlar að freista gæfunnar á alþjóðlegu dansíþróttamóti í Laugardalshöll um helgina ásamt dansherra sínum, Javier Fernandez.

Það verður líf og fjör í Laugardalshöll um helgina þar sem bæði Íslandsmeistaramót í dansi og alþjóðlega keppnin WDSF RIG 2013 fara fram. 530 keppendur eða 265 pör eru skráð til leiks og því mikið um dýrðir.

Fjórar íslenskar stúlkur dansa við erlenda dansherra í fullorðinsflokki í ár en greinileg vöntun er á íslenskum strákum í þessum flokki. Telma Rut þekkir það af eigin raun þar sem hún þurfti 16 ára gömul að leita út fyrir landsteinana að dansherra. Hún prufaði sænskan, nýsjálenskan og franskan dansherra áður en hún loks kynntist hinum spænska Javier. „Margir íslenskir strákar hætta að dansa þegar þeir eru á milli 16 og 17 ára gamlir. Ég held að það þyki einfaldlega ekki nógu svalt að vera strákur í dansi á þeim aldri og að það sé aðalástæðan fyrir að fáir íslenskir strákar skila sér upp í atvinnudansaraflokkinn, því miður,“ segir Telma Rut sem bætir við að það sé ákveðið hark og álag að vera dansari og það krefjist bæði mikils áhuga og aga.

Telma Rut og Javier hafa nú dansað saman síðan í ágúst í fyrra. Þau tóku þátt í sjónvarpsþættinum Dans dans dans og smellpassa saman að sögn Telmu. Oft halda margir að danspör séu í ástarsambandi en svo er ekki raunin með Telmu og Javier. „Við erum eins og systkini en mér finnst að maður ætti að halda þessu tvennu aðskildu. Hann elskar Ísland og vinnur við að kenna í Dansskóla Reykjavíkur. Svo býr hann heima hjá mér og er orðinn partur af fjölskyldunni,“ segir Telma Rut og fullyrðir að parið sé spennt að láta ljós sitt skína um helgina.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.