Fótbolti

Nýr meðlimur í 20 marka klúbbnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Pétursson með Feyenoord 1979.
Pétur Pétursson með Feyenoord 1979. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alfreð Finnbogason er fyrir löngu búinn að skrifa sig á spjöld sögunnar í íslenskum fótbolta með frammistöðu sinni í vetur en með því að skora sitt tuttugasta mark í 3-1 sigri Heerenveen á NEC Nijmegen um helgina komst hann í klúbbinn með þeim Pétri Péturssyni og Atla Eðvaldssyni. Það eru liðnir tæpir þrír áratugir síðan að Atli bættist í hópinn með því að skora fimm mörk í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar í júníbyrjun 1983.

Alfreð kom til Hollands sjóðandi heitur eftir að hafa skorað 12 mörk í 17 leikjum með Helsingborg í sænsku deildinni. Alfreð skoraði ekki í fyrsta leiknum en var síðan með tvö mörk í jafntefli á móti stórliði Ajax og þá var ekki aftur snúið. Hann skoraði í fimm leikjum í röð í október og í sex leikjum í röð frá desember til janúar. Alfreð var síðan að skora sitt fjórða mark í síðustu fjórum leikjum á laugardaginn.

Pétur Pétursson var stofnmeðlimur tuttugu marka klúbbsins þegar hann skoraði 23 mörk í 33 leikjum fyrir hollenska liðið Feyenoord tímabilið 1979-80. Pétur skoraði tuttugasta markið sitt í febrúar 1980 en hann skoraði 16 mörk í 17 leikjum fyrir áramót.

Atli bættist í tuttugu marka klúbbinn rúmum þremur árum síðar. Hann skoraði 16 mörk í fyrstu 33 leikjum tímabilsins en tók sig til og skoraði eftirminnilega fimmu í 5-1 sigri Fortuna Düsseldorf á Eintracht Frankfurt. Atli varð annar markahæsti leikmaður deildarinnar tveimur mörkum á eftir Rudi Völler. Það var ekki nóg með það heldur flaug Atli heim strax um kvöldið og skoraði sigurmarkið á móti Möltu í leik í undankeppni EM sem fram fór á Laugardalsvellinum daginn eftir.

Engir aðrir íslenskir leikmenn hafa náð að brjóta tuttugu marka múrinn og það skiptir engu þótt deildin hér heima sem höfð með í dæminu. Markamet efstu deildar á Íslandi er 19 mörk en því hafa fjórir leikmenn náð: Pétur Pétursson (1978), Guðmundur Torfason (1986), Þórður Guðjónsson (1993) og Tryggvi Guðmundsson (1997).

Tveir atvinnumenn voru nálægt því að bætast í tuttugu marka klúbbinn en það voru þeir Teitur Þórðarson og Arnór Guðjohnsen. Teitur skoraði 19 mörk fyrir Lens tímabilið 1981-82 og varð fjórði markahæsti maður deildarinnar. Michel Platini var meðal annars í næsta sæti fyrir ofan hann. Arnór Guðjohnsen varð markahæsti leikmaður í Belgíu 1986-87 þegar hann skoraði 19 mörk í 34 leikjum.

23 mörk - Pétur Pétursson Feyenoord 1979-80

2. markahæstur í hollensku úrvalsdeildinni

21 árs

2. tímabil í atvinnumennsku

33 leikir

4 tvennur - 0 þrennur

Skoraði í 18 leikjum

Fyrir áramót 17 leikir, 16 mörk

Eftir áramót 16 leikir, 7 mörk



21 mark - Atli Eðvaldsson Fortuna Düsseldorf 1982-83

3. markahæstur í þýsku úrvalsdeildinni

26 ára

4. tímabil í atvinnumennsku

34 leikir

2 tvennur - 1 fimma

Skoraði í 15 leikjum

Fyrir áramót 17 leikir, 8 mörk

Eftir áramót 17 leikir, 13 mörk



20 mörk - Alfreð Finnbogason Heerenveen 2012-13

2. markahæstur í hollensku úrvalsdeildinni

24 ára

3. tímabil í atvinnumennsku

24 leikir

4 tvennur - 0 þrennur

Skoraði í 16 leikjum

Fyrir áramót 16 leikir, 14 mörk

Eftir áramót 8 leikir, 6 mörk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×