Enski boltinn

Besti leikmaðurinn í janúar byrjaði ekki einn einasta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Le Fondre hjá Reading.
Adam Le Fondre hjá Reading. Mynd/Nordic Photos/Getty
Reading-maðurinn Adam Le Fondre er búinn að skora sex mörk í síðustu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en það sem vekur mesta athygli að hann hefur ekki fengið að byrja neinn þeirra. Hann var í dag valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í janúar.

Le Fondre var síðast í byrjunarliði Reading-liðsins í tapi á móti Southampton í byrjun desember. Hann skoraði tvívegis í 2-1 sigri á Newcastle 19. janúar og í 2-2 jafntefli við Chelsea 30. janúar en var engu að síðustu á bekknum fram á 65. mínútu í leik á móti Sunderland um síðustu helgi.

Adam Le Fondre hefur nú skorað sex mörk á síðustu 175 mínútum sínum í ensku úrvalsdeildinni eða mark á 29 mínútna fresti en hann er orðinn leiðir á Súper-varamannahlutverkinu.

„Ég er ánægður með að koma inn af bekknum en auðvitað vill ég helst vera í byrjunarliðinu og stjórinn veit það. Ég hef margoft rætt við hann eftir þessa leiki sem ég hef skorað í sem varamaður. Þessi mörk hafa hinsvegar fest mig í "Súper-varmanns"-hlutverkinu," sagði Adam Le Fondre.

„Ég vil ekki festast í þessu hlutverki til loka ferilsins. Ég vil ekki bara spila 20 mínútur í leik. Ég vil fá að spila 90 mínútur," sagði Le Fondre.

„Ég vil vera þekktur fyrir allt annað en að vera súper-varamaður. Ég vil fá að byrja en ég skil það að þetta breytist ekki á meðan við erum að vinna leiki," sagði Le Fondre.

Bestu leikmenn mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni í vetur:

Janúar: Adam Le Fondre, Reading

Desember: Robin van Persie, Manchester United

Nóvember: Marouane Fellaini, Everton

Október: Juan Mata, Chelsea

September: Steven Fletcher, Sunderland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×