Íslenski boltinn

Rúnar: Heimir er Mourinho okkar Íslendinga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var brosmildur eftir leikinn og það skiljanlega.

"Staða okkar er góð eftir þennan sigur en það er mikið eftir af þessu móti. Við megum hvergi slaka á og mitt helsta verkefni er að fá menn niður á jörðina fyrir leikinn gegn Val á fimmtudag," sagði Rúnar en hann gaf lítið fyrir þau ummæli Heimis Guðjónssonar að mótinu væri lokið.

"Heimir er Mourinho okkar Íslendinga. Hann er mjög góður í að tala önnur lið upp. Ég hef alltaf gaman af því."

Rúnar Alex markvörður er sonur Rúnars þjálfara. Hvernig var að vera þjálfari og faðir í dag?

"Mér fannst ég ráða ágætlega við þetta en ég vissi ekki alveg hvernig þetta yrði. Ég er oft mjög stressaður þegar ég er að horfa á hann í 2. flokki og hef ekki stjórn á honum. Ég var nokkuð rólegur í dag því ég veit hversu góður hann er. Ég held að hann sé einn besti markvörður sem hefur komið upp hér í langan tíma. Það er mín skoðun sem faðir en ég er kannski svolítið hlutdrægur," sagði Rúnar en hann viðurkenndi að vítið hefði breytt miklu.

"Fyrir strákinn þá gaf það honum mikið sjálfstraust að verja vítið. Ég veit líka að strákarnir í liðinu eru ánægðir með hann og treysta honum eins og mátti sjá í leiknum í dag. Hann hefur varið mikið af vítumí gegnum tíðina og það voru því helmingslíkur á að hann myndi verja vítið í dag."

Rúnar sagði að þrátt fyrir frammistöðu sonarins þá myndi Hannes Þór Halldórsson koma aftur inn í liðið í næsta leik. Hannes hefði ekki verið búinn að spila sig úr liðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×