Innlent

Arnþrúði ekki boðið í afmælið

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Arnþrúður var hjá Rás 2 árið 1983 í morgunútvarpi.
Arnþrúður var hjá Rás 2 árið 1983 í morgunútvarpi.
„Til hamingju með daginn Rás 2. Þetta var skemmtilegur tími. Magnað, ég er eina manneskjan frá þessum tíma sem er ekki boðin í afmælið. Var annars, einhver að tala um svörtu börnin hennar Evu?“

Þetta segir Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, í Facebook færslu á síðu sinni í dag.

„Ég gat bara ekki annað en skotið á þau, þetta er svo mikill óþarfi finnst manni,“ segir Arnþrúður í viðtali við Vísi.

Hún segist enga skýringu hafa á því af hverju henni er ekki boðið í afmælið, en Rás 2 heldur upp á 30 ára afmæli um þessar mundir.

„Ég er ein af þeim sem byrjaði á Rás 2 frá fyrsta degi og var í morgunútvarpi. Ég var eina konan og þeir voru þarna Jón Ólafsson, Páll Þorsteinsson, Ásgeir Tómasson og Þorgeir Ástvaldsson,“ segir Arnþrúður.

Hún segist hugsa hlýlega til þessa tíma.

„Þetta voru skemmtilegir tímar. Ég hafði verið á gömlu Gufunni, Rás 1, og var svo fengin í þetta verkefni með þessum herramönnum. Það voru ekki svona margar konur í dagskrárgerð á þessum tíma. Þetta var síðan gríðarleg breyting frá Rás 1, þar var allt miklu formfastara, menn vissu eiginlega ekkert hvað þeir voru að fara út í að fara að spila dægurtónlist þarna klukkutímum saman,“ segir Arnþrúður.

Arnþrúður segist ekki dvelja við það að vera ekki boðið í afmælið.

„Mér þykir ofsalega vænt um Rás 2 og óska þeim allra heilla og ég á bara góðar minningar frá þessum tíma og þessu góða fólki,“ segir Arnþrúður létt að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×