Innlent

Allir með snjallsíma - sýningin hefst á morgun

Íris Ólöf forstöðumaður byggðasafnsins Hvols á Dalvík
Íris Ólöf forstöðumaður byggðasafnsins Hvols á Dalvík

Í Fréttablaðinu í dag segir að sýningin Norðrið í Norðinu hefjist í dag en hið rétta er að hún hefst á morgun. Beðist er velvirðingar á þessu.

Á sýningunni verður Grænlenskur söngur og dans á dagskrá en sýningin fer fram á Byggðasafninu á Dalvík, þar sem konur og börn hafa mest vægi.

„Sýningin Norðrið í Norðinu varpar ljósi á það fólk sem býr í bæ sem er á norðurhjara veraldarinnar, 900 km norðar en næsta byggð. Þá er ég að tala um Scoresby-sund eða Ittooqqortoormitt eins og bærinn heitir á grænlensku,“ segir Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, forstöðumaður byggðasafnsins Hvols á Dalvík.

Hún sér um sýninguna sem opnuð er á morgun og snýst um sögu þessa litla bæjar á austurströnd Grænlands, líf kvennanna þar og barnamenningu. Scoresby-sund er einn af vinabæjum Dalvíkur og að sögn Ólafar er grunnur að sýningunni sá að fyrir fimm árum gaf fyrrum veðurathugunarmaður þar byggðasafninu Hvoli merka grænlenska gripi frá bænum.

„Áherslan er á hvað konurnar gera í þessu veiðimannasamfélagi og hvernig börnin leika sér,“ lýsir Ólöf. „Forfeður þeirra sem þar búa núna voru fluttir á þennan stað 1925, um 900 km langa leið. Það var mjög lærdómsríkt að fara þangað og sjá við hvaða aðstæður fólk býr í dag. Þarna er ekkert rennandi vatn í húsum og það er ekki ljósmóðir á staðnum og það er ekki mikið sem gerist þarna.

En náttúran er sterk og fólkið er yndislegt og kátt. Og nútíminn er þar að vissu marki. Unga fólkið er með snjallsíma og það eru allir með ipad. Það hlýtur að vera erfitt að vera þarna á norðurhjara veraldarinnar og sjá hvað til er í heiminum sem það nær ekki til. Ég talaði við tíu konur um hvernig lífi þær lifa og þau viðtöl eru á sýningunni. Sumar konurnar eru í sveitarstjórn og komast stundum í burtu, þær elska til dæmis Ísland og Kringluna. Flest sem þær voru í var keypt í Kringlunni. Flest sem þær voru í var keypt í Kringlunni. Ég var mest með konu sem er tæplega þrítug, hún er komin í sveitarstjórn, einstæð móðir með tvö börn og var ekkert sérstaklega ólík ungum konum hér. Bara alger dugnaðarforkur sem ferðaðist um á fjórhjóli með börnin, þriggja og fimm ára, framan og aftan á. Þegar ég var búin að vera þarna fannst mér enn meira gaman að gera sýninguna og ég vona að það skili sér.“

Ólöf fer með sýninguna til Danmerkur í mars, í glænýtt hús sem er verið er að reisa í Óðinsvéum og heitir Norðuratlantshafshúsið, og síðan liggur leiðin til Grænlands með sýningarmunina í koffortum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×