Íslenski boltinn

Elías: Vanari því að hirða boltann í teignum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Elías Már Ómarsson, leikmaður Keflavíkur, stimplaði sig inn í Pepsi-deild karla með sannkölluðum þrumufleyg í 2-1 tapi liðsins gegn Breiðabliki um helgina.

Eins og sést í meðfylgjandi myndbandi er mark Elíasar Más sérlega glæsilegt en það kom Keflvíkingum í 1-0 forystu í leiknum. Það dugði þó ekki til á endanum.

„Ég er nú vanari því að hirða boltann í teignum og skora mörkin mín þannig,“ sagði Elías Már við Vísi í dag. „En það kemur fyrir að maður láti vaða af svona færi.“

Elías fékk mikið hrós hjá þáttastjórnendum Pepsi-markanna í gær og hann segir það hafa verið sérstaka upplifun. „Það var mjög gaman og skemmtilegt að sjá sjálfan sig spila fótbolta í sjónvarpinu,“ segir hann.

Þetta var fyrsti leikur Elíasar Más í byrjunarliði Keflavíkur og hann er þakklátur fyrir það tækifæri. „Ég var búinn að koma nokkrum sinnum inn á sem varamaður en nú er stefnan auðvitað að halda sæti mínu í byrjunarliðinu,“ segir hann.

Elías varð átján ára á þessu ári og er því enn í 2. flokki. Hann hefur þó fyrst og fremst æft með meistaraflokki Keflavíkur í sumar og vonas til að liðið fari að safna fleiri stigum á síðari hluta mótsins.

„Sérstaklega á heimavelli, þar eigum við að fá fleiri stig,“ segir hann en Keflavík hefur aðeins fengið eitt stig á Nettóvellinum til þessa. Liðið mætir einmitt Íslandsmeisturum FH í Keflavík á laugardaginn.

Mark Elíasar má sjá í meðfylgjandi myndbandi. Það kemur eftir 45 sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×