Íslenski boltinn

Jóhann Laxdal: Ég keypti bara miða út

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
jóhann laxdal
jóhann laxdal
Jóhann Laxdal Stjörnumaður er samningslaus og skoðar nú sín mál en hann hefur hug á því að komast í atvinnumennsku.

Hann fer á mánudag til norska liðsins Rosenborg og mun æfa með því í ótiltekinn tíma.

„Rúnar Páll [þjálfari Stjörnunnar] kom mér þarna inn. Þar get ég æft og verið í góðu formi ef ég verð kallaður í landsliðshópinn fyrir umspilsleikina gegn Króatíu,“ sagði Jóhann en óvíst er hvenær hann kemur aftur heim.

„Ég keypti bara miða út. Kannski detta inn tækifæri hjá öðrum norskum liðum og þá fer ég í það eftir tímann hjá Rosenborg. Það verður koma í ljós. Ég ætla annars að nýta tímann vel hjá Rosenborg. Maður verður stundum að koma sér sjálfur á framfæri. Ég tel að það sé kominn tími á næsta skref hjá mér en er samt ekkert að fara á taugum þó svo að ekkert komi upp.“

Hann hefur meðal annars verið orðaður við KR upp á síðkastið en segist ekki vera á leið þangað.

„Ef ég spila áfram á Íslandi þá verður það með Stjörnunni. Það er alveg 100 prósent. Ég hef heyrt af áhuga KR en kom þeim skilaboðum áleiðis að ég ætlaði að vera í Stjörnunni ef ég verð heima. Ég veit að það sama á við um bróður minn Daníel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×