Fótbolti

Umfjöllun: Svíþjóð - Ísland 4-0 | Ísland úr leik á EM

Óskar Ófeigur Jónsson í Halmstad skrifar
Mynd/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta átti ekki möguleika í sjóðandi heitt sænskt landslið í sólinni í Halmstad í dag þegar þjóðirnar mættust í átta liða úrslitum Evrópumótsins. Allt sem mátti ekki gerast í upphafi leiks gerðist og eftirleikurinn var auðveldur fyrir sænska liðið. Svíar unnu öruggan 4-0 sigur og tryggðu sér sæti í undanúrslitum EM. Frábær keppni hjá íslensku stelpununum þótt að endirinn hafi verið snubbóttur.

Svíarnir skoruðu fyrsta markið eftir tvær mínútur og 40 sekúndur og voru komnar í 3-0 eftir 19 mínútna leik. Þessi draumabyrjun Svía breytti þessum sólardegi í martröð fyrir íslensku stelpurnar sem þurfu að spila næstu 70 mínútur vitandi það að leikurinn væri í raun búinn.

Sænska liðið er nú búið að skora tólf mörk í síðustu þremur leikjum sínum á Evrópumótinu og þær eru til alls líklegar í keppninni um Evrópumeistaratitilinn. Litla Ísland var á stóra sviðinu í fyrsta skiptið og hreinlega númerum of litlar til að ógna einu besta kvennaliði heims á heimavelli.

Leikurinn gat ekki byrjað verr. Marie Hammarström fékk að labba upp að teig og skjóta. Boltinn lá í netinu við mikinn fögnuð sænsku áhorfendanna sem bjuggust nú við markaveislu enda ekki liðnar þrjár mínútur af leiknum.

Tvö sænsk mörk með fimm mínútna millibili gengi svo frá leiknum. Margrét Lára Viðarsdóttir fékk dæmda á sig aukaspyrnu upp við teig Svíana sem hún var mjög ósátt með. Svíar náðu skyndisókn og Lotta Schelin spilaði Josefine Öqvist í gegn.

Það gekk allt á afturfótunum og allt datt með Svíum á þessum fyrstu nítján mínútum. Í þriðja markinu hafði fyrirgjöf frá hægri viðkomu í varnarmanni íslenska liðsins sem varð til þess að boltinn datt inn í hlaupalínu Lottu Schelin sem skoraði.

Leikurinn var um leið búinn og þegar 70 mínútur voru eftir var þetta farið að snúast um það fyrir íslensku stelpurnar að bjarga stoltinu.

Fjórða mark Svía kom þó ekki fyrr en eftir tæplega klukkutíma leik og þá eftir að sænska liðið hafði fyrir löngu tekið fótinn af bensíngjöfinni. Framherjarnir Kosovare Asllani og Lotta Schelin unnu vel saman og Schelin setti sitt fimmta mark í keppninni.

Katrín Jónsdóttir fékk heiðursskiptingu tíu mínútum fyrir leikslok þegar hin 18 ára Glódís Perla Viggósdóttir tók stöðu hennar í miðri vörninni. Íslensku áhorfendurnar klöppuðu vel fyrir Katrínu en frábær ferill hennar með landsliðinu er nú væntanlega á enda. Tveir yngstu leikmenn liðsins voru þær tvær síðustu til að koma inn á hjá Íslandi því áður hafði Sigurður Ragnar Eyjólfsson sett Elín Mettu Jensen inn fyrir Margréti Láru Viðarsdóttur.

Íslenska liðið stóð sig frábærlega í Svíþjóð og keppninnar á ekki að vera minnst fyrir þenann slæman dag. Það vissu allir að allt þurfti að ganga upp hjá íslensku stelpunum til að þær ættu roð í sterkt sænskt lið í stuði. Það kom í ljós strax eftir tæplega þriggja mínútna leik að svo yrði ekki. Stelpurnar okkar stigu samt mörg stór skref á þessu móti og þetta verður vonandi ekki í síðasta skiptið sem þær komast svona langt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×