Innlent

Sífellt meiri stemning fyrir Hrekkjavöku hér á landi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hrekkjavakan eða Halloween eins og hún nefnist á ensku er sífellt að verða meira áberandi hér á landi. Það eru skiptar skoðanir á þessum sið sem margir vilja taka upp hér.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir flutti heim frá New York fyrir rúmu ári síðan þar sem hún bjó ásamt fjölskyldu sinni í nokkur ár. Þau fjölskyldan halda Hrekkjavökuna en þau kynntust hátíðinni fyrst þegar þau bjuggu úti.

„Þetta er skemmtileg hátíð, bæði fyrir börn og fullorðna. Það var gaman að kynnast hátíðinni úti og sjá hvað fólk leggur mikið upp úr henni. Það er mikið lagt í skreytingar og allir eða flestir taka þátt. Vinnustaðir skreyta hjá sér og skólarnir halda böll,“ segir Þorbjörg.

Hún segir fólk úti skreyta húsin sín bæði að innan og utan með alls konar skrauti til dæmis með risa kóngulóm og upplýstum graskerum. Þorbjörg á þrjár dætur og segir þær ekki taka annað í mál en að halda upp á hátíðina hér.

„Við fluttum meira magn  af Hrekkjavökuskrauti heim með okkur en jólaskraut,“ segir hún.

Hún hafði ekki velt þessum sið mikið fyrir sér áður en hún flutti út en hún tekur eftir því núna að það sé þó nokkur stemning hér á landi fyrir hátíðinni.

„Sumir eru á móti þessu, að við séum að taka hér upp ameríska siði en sagan á bak við Hrekkjavökuna er alls ekki bara amerísk. Ég skil þessi rök líka illa þar sem mér þykir þetta viðeigandi á þessum tíma árs, að gera sér glaðan dag með fjölskyldunni. Þetta er bæði fjölskylduvæn og sjarmerandi hátíð,“ segir Þorbjörg sem hélt Hrekkjavökupartý fyrir bekkjarsystur dætra sinna í dag og þangað mættu gestir í búning.



Einhverjir vinnustaðir tóku upp á því að halda upp á Hrekkjavöku. Tölvufyrirtækið Plain Vanilla hélt upp á daginn á föstudaginn var. Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri fyrirtækisins segir að þau haldi þemadaga reglulega og því hafi verið tilvalið að hafa Hrekkjavökuþema í þetta skiptið. "Það mættu allir í búning og það var mikil stemning," segir hann.

Á Facebook síðu Ríkiskaupa má sjá að þar gerðu starfsmenn hrekktu samstarfsfélaga sína með því að hylja húsgögn með plasti og öðru. Einnig skreyttu þeir vinnustaðinn með Hrekkjavökuskreytingum eins og kóngulóm.

Starfsmenn Hrafnistu Í Hafnarfirði gerðu sér einnig glaðan dag.  Þuríður Gunnarsdóttir, starfsmaður á Hrafnistu, sagði að síðusu vikur væri búið að vera mikið sprell í gangi. „Þetta hafa verið skemmtilegar vikur með stríðni og vinskap í fararbroddi. Það mætti enginn i búning en þegar hún mætti í vinnu var búið að snúa öllu á vinnustaðnum við.  Meira að segja uppþvottavélinni.“

Rut Ingólfsdóttir, starfsmaður á Leigulistanum, mætti vel skreytt til vinnu í dag. „Það mætti að vísu enginn annar í búning, mér finnst bara allt svona brall svo skemmtilegt. Allt sem brýtur upp hversdagsleikann,“ segir hún.

„Ég er ekki beint í búning, ég er í gömlum kjól og gamalli peysu svo er ég í beinagrindanáttbuxum af syni mínum sem líta út eins og beinagrindaleggings á mér. En ég er máluð en ég hef gaman af slíku.“

„Ég geri þetta svolítið til að sýna krökkunum að það megi alveg „galsast“ aðeins. Heimurinn er ekki alltaf alvarlegur. Það getur verið ágætt a vera pínu grallari í sér og segja: Ég ætla að mála mig, viltu vera með?“

Rut segist sjálf hafa verið á móti þessum sið lengi vel. Hún segir að við ættum auðvitað að passa upp á okkar hefðir og okkar siði, þeir mega ekki gleymast. En með árunum hafi hún mildast og vilji nýta hvert tækifæri til að halda upp á eitthvað með fjölskyldunni en fjölskyldan hennar ætli að halda upp á Hrekkjavökuna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×