Íslenski boltinn

Titillinn tryggður í kvöld?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Anna Björk Kristjánsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir með Íslandsmeistaratitilinn sem vannst sumarið 2011.
Anna Björk Kristjánsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir með Íslandsmeistaratitilinn sem vannst sumarið 2011. Mynd/Stefán
Stjarnan í Garðabæ gæti orðið Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu í annað skiptið á þremur árum falli úrslit þeim í hag í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld.

Stjarnan tekur á móti Val í stórleik umferðarinnar sem sýndur er beint á Stöð 2 Sport 3 og Vísi. Stjarnan hefur ellefu stiga forskot á Breiðablik í öðru sæti deildarinnar. Nýkrýndir bikarmeistarar úr Kópavoginum taka á móti Aftureldingu í kvöld.

Vinni Stjarnan sigur á Val og tapi Breiðablik stigum gegn Aftureldingu verður Garðabæjarliðið Íslandsmeistari þó enn séu fjórar umferðir eftir af mótinu. Aðeins tólf stig verða eftir í pottinum að loknum leikjum kvöldsins og því ómögulegt að brúa þrettán eða fjórtán stiga mun.

Leikur Breiðabliks og Aftureldingar hefst klukkan 18 ásamt þremur öðrum leikjum. Viðureign Stjörnunnar og Vals hefst ekki fyrr en klukkan 19.15. Í hálfleik í Garðabænum verður leiknum í Kópavogi lokið. Þá munu bláklæddar Stjörnustelpur vita hvort það sé í þeirra höndum að tryggja sér titilinn í kvöld.

Fari svo að Breiðablik vinni sigur á Aftureldingu, sem flestir reikna með, þarf Stjarnan að bíða fram á mánudag eftir tækifæri til að tryggja sér titilinn. Sigur á Þrótti á Valbjarnarvelli myndi tryggja Garðabæjarliðinu gullið eftirsótta.

Stjarnan hefur unnið alla sína leiki í deildinni. Liðið gæti bætt stigamet sitt í tíu liða efstu deild en liðið fékk 51 stig í deildinni sumarið 2011 er liðið tapaði aðeins einum leik.

Leikir kvöldsins:

Klukkan 18

Breiðablik - Afturelding

FH - HK/Víkingur

Þór/KA - Þróttur

ÍBV - Selfoss

Klukkan 19.15

Stjarnan - Valur

Stöðuna í deildinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×