Innlent

Átökin í Kaíró kostuðu tugi manna lífið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Særður maður fluttur til aðhlynningar í bráðabirgðasjúkraskýli.
Særður maður fluttur til aðhlynningar í bráðabirgðasjúkraskýli. Nordicphotos/AFP
Hörð átök kostuðu að minnsta kosti 40 manns lífið í Kaíró í nótt og hundruð særðust fyrir utan herskála, þar sem stuðningsmenn Múhameds Morsi, fyrrverandi forseta, telja hann hafðan í haldi.  Samtök Morsis, Bræðralag múslima, hvetja almenning til uppreisnar.

Herinn fullyrðir að átökin hafi byrjað þegar hópur vopnaðra manna hóf skothríð, sem kostaði fimm almenna borgara og einn hermann lífið. Bæði talsmaður Bræðralags múslima  og vitni á staðnum halda því hins vegar fram að það hafi verið hermenn sem tóku að fyrra bragði að skjóta á mannfjöldann snemma í morgun.

Herinn steypti Morsi af stóli í síðustu viku. Stuðningsmenn hans, sem margir eru liðsmenn Bræðralags múslima, hafa allar götur síðan mótmælt ákaft fyrir utan herstöðina og krefjast þess að hann verði látinn laus úr stofufangelsi og verði forseti á ný.

Blóðbaðið í morgun varð til þess að flokkur harðlínumúslima, Al Núr, dró til baka stuðning sinn við nýju bráðabirgðastjórnina, sem herinn kom til valda eftir að Morsi var steypt af stóli.

Egypski stjórnmálamaðurinn Múhamed El Baradei, sem studdi valdatöku hersins og átti um tíma að verða forsætisráðherra nýju stjórnarinnar, krefst þess að atvikið í morgun verði rannsakað.

„Ofbeldi kallar á ofbeldi og á að fordæma harðlega,“ sagði El Baradei á Twittersíðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×