Enski boltinn

Holtby vill ekki spila sömu stöðu og Gylfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Lewis Holtby.
Gylfi Þór Sigurðsson og Lewis Holtby. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lewis Holtby, miðjumaður Tottenham, er einn af mörgum miðjumönnum liðsins sem er í samkeppni við íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson um sæti í byrjunarliði Tottenham.

Tottenham keypti þennan 22 ára miðjumann frá Schalke í janúarglugganum í kjölfar þess að Brasilíumaðurinn Sandro meiddist illa.

Lewis Holtby segist þó ekki vera að stefna á sömu stöðu og Gylfi okkar Sigurðsson sem vill helst spila í holunni fyrir aftan framherjann.

„Mín besta staða er varnartengiliður eða á miðri miðjunni í leikkerfinu 4-3-3. Þar líður mér best og ætti að gera skilað mestu til liðsins," sagði Lewis Holtby við Daily Mail.

„Ég kom inn í liðið án þess að fá undirbúningstímabilið og þegar liðið var í góðum gír. Ég vissi því að það yrði afar erfitt að vinna mér sæti í liðinu. Ég reyni bara að aðlagast eins fljótt og kostur er," sagði Holtby.

Tottenham-liðið hefur aðeins gefið eftir í undanförnum leikjum eftir frábært gengi þar á undan en Holtby hefur ekki áhyggjur og telur að landsleikjahléið hjálpi liðinu.

„Það er gott að fá þetta tólf daga landsleikjahlé þar sem allir fá tækifæri til að hreinsa hugann, hitta landsliðsfélagana og sjá eitthvað nýtt. Við munum koma flottir til baka," sagði Holtby sem var upptekinn með þýska 21 árs landsliðinu sem vann 2-1 sigur á Ísrael á sunnudaginn. Holtby var fyrirliði liðsins og skoraði líka fyrra markið í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×