Fótbolti

Van Basten líkir Alfreð við Van Nistelrooy

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Marco van Basten, stjóri Heerenveen, segir að Alfreð Finnbogason hafi fulla burði til að verða frábær sóknarmaður.

Alfreð hefur verið frábær á tímabilinu í Hollandi og skorað 24 mörk - helming allra deildarmarka liðsins.

Fulltrúar Sunderland hafa haft augastað á Alfreð sem hefur einnig verið orðaður við Aston Villa, Everton og West Ham.

Þá greina ítalskir fjölmiðlar frá því að AC Milan, gamla félag Van Basten, hafi einnig áhuga á Alfreð.

„Ég set Alfreð í sama flokk og Ruud van Nistelrooy, Klaas-Jan Huntelaar og Jon Dahl Tomasson,“ sagði Van Basten en þess má geta að sá síðastnefndi er reyndar af íslenskum ættum.

„Allir byrjuðu sinn feril hjá Heerenveen. Alfreð getur orðið frábær sóknarmaður. Hann er með frábæra sýn, hefur auga fyrir mörkum og er gríðarlega mikils virði fyrir þetta félag.“

Samkvæmt enskum fjölmiðlum er Alfreð metinn á fimm milljónir punda, um 900 milljónir króna, af félagi sínu en hann á tvö ár eftir af samningi sínum þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×