Fótbolti

Beckham fékk beint rautt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alls voru fimm rauð spjöld gefin í leik Evian og PSG í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Leiknum lauk með 1-0 sigri PSG.

David Beckham entist í aðeins sex mínútur eftir að hann kom inn á sem varamaður í leiknum. Hann fékk rautt undir lok leiksins fyrir hættulega tæklingu.

Leikurinn var skrautlegur, svo ekki sé meira sagt. Javier Pastore skoraði eina mark leiksins á 50. mínútu en svo fékk Marco Verratti að líta rauða spjaldið þegar hann fékk sína aðra áminningu í leiknum átta mínútum fyrir leikslok.

Beckham kom svo inn á stuttu síðar og fauk út af fyrir að tækla Youssef Adnane, leikmann Evian. Það voru því aðeins níu leikmenn inn á í liði PSG þegar leikurinn var flautaður af.

Claude Makelele, aðstoðarstjóri PSG, var líka sendur upp í stúku fyrir að mótmæla dómgæslunni og eftir að leikurinn var flautaður fóru Saber Khelifa, leikmaður Evian, og Salvatore Sirigu, markvörður PSG, að slást og fngu þeir líka báðir rautt.

PSG er með níu stiga forystu á toppi deildarinnar þegar að fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×