Innlent

Píratar stunda síður íþróttir og sofa verr

Brjánn Jónasson skrifar
Rúmur helmingur landsmanna stundar einhverskonar íþróttir nokkrum sinnum í viku eða oftar.
Rúmur helmingur landsmanna stundar einhverskonar íþróttir nokkrum sinnum í viku eða oftar. Mynd/Anton
Stuðningsmenn Pírata stunda síður íþróttir en stuðningsmenn annarra flokka, samkvæmt skoðanakönnun MMR.

Kjósendur Pírata og stuðningsmenn Bjartrar framtíðar og vakna síður endurnærðir en kjósendur annarra flokka. Óvíst er hvort það tengist frumvarpi Bjartrar framtíðar um að seinka klukkunni eða aldursdreifingu stuðningsmanna flokkanna.

Samkvæmt könnuninni borðar rúmur helmingur þjóðarinnar, um 53,4 prósent, hollan morgunmat svo til daglega. Svipað hlutfall, 52 prósent stundar líkamlegar íþróttir nokkrum sinnum í viku eða oftar. Þá sögðust 51,5 prósent borða ávexti og/eða grænmeti svo til daglega.

Hærra hlutfall kvenna borðar ávexti og/eða grænmeti nokkrum sinnum í viku eða oftar. Alls sögðust 90,5 prósent kvenna borða þessar fæðutegundir nokkrum sinnum í viku eða oftar, samanborið við 73,3 prósent karla.

Alls sögðust 62,3 prósent vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar. Hlutfallið var hærra meðal þeirra sem eldri eru en yngri svarenda. Aðeins 56,3 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára sögðust vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku, en 70,3 prósent fólks á aldrinum 50 til 67 ára.

Könnunin var gerð dagana 30. október til 1. nóvember. Alls tóku 963 einstaklingar 18 ára og eldri þátt í könnuninni. Þátttakendur voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.

Nánar má lesa um könnunina á vef MMR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×