Innlent

Ormagryfja misnotkunar opnaðist í kjölfarið á kæru

Konan býr nú með dóttur sinni á Vesturlandi. Tengdasonurinn er farinn af heimilinu. Gamli maðurinn sem nú situr í gæsluvarðhaldi býr á sveitabæ á Snæfellsnesi.Fréttablaðið/gva
Konan býr nú með dóttur sinni á Vesturlandi. Tengdasonurinn er farinn af heimilinu. Gamli maðurinn sem nú situr í gæsluvarðhaldi býr á sveitabæ á Snæfellsnesi.Fréttablaðið/gva
Gæsluvarðhald yfir 82 ára bónda á Snæfellsnesi, sem grunaður er um langvinn kynferðisbrot gegn þroskaheftri stjúpdóttur sinni, rennur út á þriðjudaginn kemur. Ekki liggur fyrir hvort óskað verður eftir framlengingu á því.

Ríkisútvarpið sagði fyrst frá fjölskylduharmleiknum á laugardaginn fyrir viku. Svo virðist sem konan hafi sætt langvarandi misnotkun af hálfu minnst fjögurra karlmanna sem allir tengdust henni fjölskylduböndum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hófst málið í ársbyrjun þegar ófeðruð dóttir konunnar uppgötvaði að maður hennar hafði beitt móður hennar kynferðislegu ofbeldi um nokkurt skeið. Þau höfðu öll búið saman á Vesturlandi.

Dóttirin, sem er um þrítugt, fór með málið til lögreglunnar og þegar í stað hófst umfangsmikil rannsókn hjá lögreglunni á Akranesi. Hún hefur í kjölfarið slitið samvistum við manninn og býr nú ein með móður sinni.

Konan, sem er nú um fimmtugt, er verulega greindarskert eftir heilaskaða sem hún hlaut í æsku.

Tengdasonur hennar, maður um fertugt, gekkst fljótlega við því að hafa brotið gegn henni. Hann sætti aldrei varðhaldi. Rannsókn þess máls er á lokastigi og verður það fljótlega sent Ríkissaksóknara til ákærumeðferðar.

Við rannsókn þess opnaðist hins vegar ormagryfja, þegar konan greindi frá kynferðislegu ofbeldi sem hún hefði þurft að sæta í um fjóra áratugi af hálfu fyrrverandi stjúpföður síns, bóndans sem nú situr í gæsluvarðhaldi.

Móðir konunnar átti í sambandi við bóndann áratugum saman með hléum og misnotkunin sem konan segist hafa sætt átti sér stað á sveitabæ þeirra á Snæfellsnesi. Nýjustu brotin munu vera frekar nýleg.

Þar með er ekki öll sagan sögð, því að konan hefur einnig borið að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi af tveimur bræðrum stjúpans fyrrverandi. Annar þeirra bjó á bænum. Báðir létust árið 2003.

Rannsókn á máli gamla mannsins er skammt á veg komin og að því er fram kom í fréttum RÚV hefur hann ekki játað sök.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×