Fótbolti

Forlan: Góður peningur og góður fótbolti í Brasilíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Diego Forlan sér ekki eftir því að hafa yfirgefið evrópska fótboltann en hann samdi við brasilíska félagið Internacional í júlí síðastliðnum eftir að hann fékk sig lausan frá ítalska félaginu Internazionale.

Hinn 33 ára gamli framherji frá Úrúgvæ gerði þriggja ára samning við brasilíska félagið og hefur síðan skorað 12 mörk í 27 leikjum í öllum keppnum.

„Þetta var ekki erfið ákvörðun enda reyni ég að forðast eftirsjá. Brasilía er gott land, þeir spila góðan fótbolta og borga góðan pening. Þetta er ekki svo öðruvísi frá því að vera í Evrópu," sagði Diego Forlan við BBC.

„Þetta er mjög ánægjulegur tími fyrir mig. Ekki bara vegna fótboltans heldur einnig vegna að þess að ég er kominn með kærustu. Ég er líka rétt frá Úrúgvæ sem auðveldar margt fyrir bæði mig og hana. Ég er í aðeins klukkutíma fjarlægð frá fjölskyldunni sem er frábært," sagði Forlan.

Forlan skoraði bara 2 mörk í 20 leikjum með Internazionale tímabilið 2011-12 en hann var kosinn besti leikmaðurinn á HM 2010.

„Ítalía var slæmur tími fyrir mig. Þegar ég kom til Inter þá var félagið í vandræðum. Ég skoraði í mínum fyrsta leik en meiddist svo og var frá í tvo og hálfan mánuð. Þegar ég kom til baka þá var ég ekki að spila mína réttu stöðu," sagði Forlan.

„Ég hef spilað í mörgum ólíkum deildum í mörgum löndum. Hver deild hefur sína sérstöðu og engin er betri en önnur. Það eru stórlið í öllum löndum og engin deild er auðveld," sagði Forlan sem lék með Manchester United í Englandi og með Atletico Madrid á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×