Íslenski boltinn

Grétar: Líklegra að ég verði áfram í KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Sigfinnur Sigurðarson, leikmaður KR, segist vilja berjast fyrir sæti sínu hjá félaginu þrátt fyrir að hafa fengið þau skilaboð að hann megi líta í kringum sig.

Þetta sagði hann í samtali við Boltann á X-inu í morgun. Grétar Sigfinnur greindi frá því í viðtali við Vísi á föstudag að honum hafi verið tilkynnt að hann megi finna sér nýtt félag.

„Hann kom beint fram með þetta og var hreinskilinn með það. Hann sagði að þeir ætluðu að vera með aðra leikmenn í byrjunarliðinu," sagði Grétar.

„Maður tekur því og þarf nú að taka þá ákvörðun um hvort maður vilji berjast fyrir sætinu eða líta í kringum sig. Mín fyrsta hugsun er að vera áfram og berjast fyrir sætinu."

„Það er sárt að fara úr því að spila hvern einasta leik síðustu 5-6 ár og svo breytist það allt í einu. Það er sjokk en maður verður að taka því sem áskorun og reyna að gera betur."

Grétar er samningsbundinn KR í tvö ár til viðbótar og hann segir að það komi vel til greina að halda kyrru fyrir í vesturbænum.

„Það er mögulegt að ég fari en það er líklegra að ég verði áfram. Ég hef ekki heyrt í neinum og ekki heyrt neitt um neitt. Ég er að spila fyrir KR og mun leggja mig fram og berjast um þetta sæti."

Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, staðfesti á föstudag að Valur hefði áhuga á Grétari Sigfinni.

„Ég vil sem minnst segja um það. Maður heldur þessu opnu og ég mun líta í kringum mig ef eitthvað skemmtilegt er. En það hefur ekkert gerst í þessum efnum."


Tengdar fréttir

Grétars ekki óskað hjá KR

Grétar Sigfinnur Sigurðarson er líklega á leið frá KR. Honum var tilkynnt í gær að þjálfarinn Rúnar Kristinsson vilji frekar nota aðra leikmenn.

Valur hefur áhuga á Grétari Sigfinni

Kristinn Kjærnested segir að Valur hafi sett sig í samband við KR-inga til að kanna stöðu Grétars Sigfinns Sigurðarsonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×