Íslenski boltinn

Grétars ekki óskað hjá KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Sigfinnur í leik með KR gegn Val síðastliðið sumar.
Grétar Sigfinnur í leik með KR gegn Val síðastliðið sumar. Mynd/Valli
Grétar Sigfinnur Sigurðarson er líklega á leið frá KR. Honum var tilkynnt í gær að þjálfarinn Rúnar Kristinsson vilji frekar nota aðra leikmenn.

„Ég er auðvitað í sjokki," sagði varnarmaðurinn Grétar Sigfinnur við Vísi í dag en hann er uppalinn KR-ingur og hefur spilað með meistaraflokki félagsins samfleytt síðan 2008. Hann lék einnig með Val og Víkingi á sínum tíma.

„Mér var tjáð að þeir vilji frekar nota aðra leikmenn," bætti hann við. „Það er því kannski best fyrir mig að líta í kringum mig, þó svo að ég eigi enn eftir tvö ár af mínum samningi við KR."

„Ef þjálfarar vilja fara ákveðnar leiðir að því að vinna titla þá er það auðvitað það eina sem gildir."

„Ég er þó vissulega vonsvikinn og sár. Ég er þó ekki fúll út í neinn. Þetta kom bara á óvart, enda hef ég alltaf gert mitt besta."

Grétar Sigfinnur segir að sín fyrsta ósk sé að vera áfram hjá KR og berjast um sæti.

„Mér var samt gert ljóst fyrir því að það yrði erfitt, enda væri ég dottinn það aftarlega í goggunarröðinni."

„Þeir vilja einfaldlega prófa aðra hluti og telja sig vera betur stadda þannig. Þeir hafa fullan rétt á því."

„Ég er engu að síður samningsbundinn og fer ekki annað nema eitthvað skemmtilegt býðst."

„Minn fyrsti kostur er að vera hér og berjast um sæti. Ég er gríðarlega mikill KR-ingur og hef verið síðan ég byrjaði í fótbolta. Mér er því mjög brugðið við þetta allt saman en við þessu er ekkert að gera."

Hann segir að engin félög hafa talað við sig en Vísir hefur engu að síður heimildir fyrir því að Valur hafi kannað stöðu Grétars Sigfinns.

„Ég veit ekkert um það," sagði Grétar Sigfinnur.

Uppfært 17.08: Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, vildi ekki tjá sig um málið en sagði að það væri ætlunin að funda með Grétari í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×