Íslenski boltinn

Hefnd er ekki skemmtilegt orð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson. Mynd/Valli
„Þetta er auðvitað mjög skemmtileg viðureign liðanna sem mættust í bikarúrslitum í fyrra. Nú fáum við heimaleik og það er alltaf eina óskin sem menn láta uppi og vilja í undanúrslitum."

Þetta sagði Logi Ólafsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir að dregið var í undanúrslit Borgunarbikars karla. Stjarnan mætir KR á heimavelli sínum í Garðabæ miðvikudaginn 31. júlí.

„Mótherjinn er í erfiðari kantinum, það er ekki hægt að segja annað. Því er ekki að neita að KR er sjálfsagt besta lið landsins í dag. Að minnsta kosti miðað við stöðuna í deildinni" segir Logi.

Stjarnan fær því kærkomið tækifæri til að hefna fyrir tapið gegn KR í bikarúrslitum í fyrra. Logi kann þó ekki vel við orðið hefnd.

„Sumir kjósa að nota þetta orð en mér finnst það ekki mjög skemmtilegt. Við veljum ekki velta fortíðinni mikið fyrir okkur. Við viljum gera vel í framtíðinni."

Stjarnan hefur ekki enn unnið deildar- eða bikarmeistaratitil í meistaraflokki karla í knattspyrnu. Ætli möguleikinn í bikarnum sé meiri en í deildinni í ár þar sem Stjarnan er fimm stigum á eftir toppliði KR?

„Það er ljóst að vegurinn að titli í bikarnum er styttri en í deildinni. Þú þarft að ljúka fimm leikjum til að verað bikarmeistari á meðan það þarf 22 í deild. Þannig að það segir sig sjálft að það er styttra í titil í bikarnum og getur verið auðveldara," segir Logi. Hann minnir þó á erfiða leið Stjörnunnar í bikarnum hingað til.

„Við fórum til Akureyrar í framlengingu og vítakeppni, við fengum FH heima og síðasti leikur var mjög erfiður líka. Við mættum Pepsi-deildarliðum í öllum tilvikum. Þegar lið eru komin svona langt, og aðdragandinn verið svona erfiður, þá leggja menn allt í þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×