Íslenski boltinn

Var 17 ára og fékk að koma inn á

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ríkharður Daðason.
Ríkharður Daðason.
Ríkharður Daðason man vel eftir því þegar Fram varð síðast bikarmeistari í knattspyrnu karla fyrir 24 árum.

Fram lagði KR að velli 3-1 á Laugardalsvelli sumarið 1989. Guðmundur Steinsson skoraði tvö marka þeirra bláklæddu og Pétur Ormslev eitt.

„Ég var 17 ára og fékk að koma inn á," segir Ríkharður sem leysti markaskorarann Guðmund af velli á 65. mínútu leiksins. Ríkharður varð Íslandsmeistari árið eftir með Fram en síðan þá hefur aðeins ryk safnast í verðlaunaskáp Framara.

„Við höfum þrívegis komist í úrslit síðan en alltaf tapað," segir Ríkharður sem er í sínu fyrsta starfi sem þjálfari.

„Auðvitað væri það frábært að ná að komast í úrslitaleikinn. Þetta snýst um að komast í aðstöðu til að vinna eitthvað. Þessi keppni bíður liðum sem hafa ekki stöðugleika í 22 leikjum upp á það. Þarna geturðu tengt saman fimm leiki og komið þér í úrslitaleik."

Fram mætir Breiðabliki í undanúrslitum fimmtudaginn 1. ágúst. Liðið er einum leik frá úrslitaleiknum.

„Nú erum við í þeirri stöðu en þetta er jafnframt sárasti staðurinn til þess að detta út. Menn verða að vera í lagi ef þeir ætla að komast í úrslitaleik," segir Ríkharður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×