Íslenski boltinn

Við gefum okkur helgina í að klára málið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar Páll var aðstoðarmaður Loga í sumar en tekur nú við sem aðalþjálfari.
Rúnar Páll var aðstoðarmaður Loga í sumar en tekur nú við sem aðalþjálfari. fréttablaðið/valli
„Við gefum okkur helgina í að klára málið en þetta lítur vel út,“ segir Almar Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar. Hann mun um helgina ráða Rúnar Pál Sigmundsson sem þjálfara meistaraflokks karla. Hann tekur við starfinu af Loga Ólafssyni sem var rekinn á dögunum.

Stjörnumenn sóttu ekki vatnið yfir lækinn því Rúnar Páll var aðstoðarmaður Loga í sumar. Hann þjálfaði HK síðast á Íslandi en svo fór hann út til Noregs og þjálfaði Levanger áður en hann kom aftur heim og byrjaði að vinna fyrir Stjörnuna.

„Við ræddum við þrjá aðila en hina tvo ekki formlega. Við heyrðum bæði í Sigurði Ragnari Eyjólfssyni og svo Þorláki Árnasyni. Þorlákur er auðvitað okkar maður og hefur verið lengi hjá félaginu. Það voru ræddar ýmsar hugmyndir við hann en þær viðræður fóru aldrei á neitt flug.“

Almar vill ekki ræða sérstaklega af hverju Stjarnan vilji frekar fá Rúnar en hina tvo.

„Við höfum bullandi trú á Rúnari og því sem við erum að leggja upp með. Við ætlum að halda áfram að fara með þetta lið upp á við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×