Enski boltinn

Paolo Di Canio tekinn við Sunderland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paolo Di Canio.
Paolo Di Canio. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ítalinn Paolo Di Canio verður næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Sunderland og tekur því við af Martin O'Neill sem var rekinn eftir tapið á móti Manchester United á laugardaginn. Þetta verður fyrsta stjórastarf Di Canio í ensku úrvalsdeildinni en hann lék í deildinni með Sheffield Wednesday, West Ham United og Charlton Athletic frá 1997 til 2004.

Sunderland tilkynnti um nýja stjórann sinn á heimasíðu félagsins í kvöld. Di Canio er 44 ára gamall og var síðast knattspyrnustjóri Swindon en hann hætti með Swindon Town liðið eftir deilur við eigendur um peningamál.

Paolo Di Canio tekur við Sunderland-liðinu á morgun en hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning. Fyrsti leikurinn verður á móti Chelsea á útivelli á næsta sunnudag.

Sunderland hefur ekki unnið leik síðan á móti Wigan 19. janúar síðastliðinn en liðið hefur aðeins náð í þrjú stig í síðustu átta leikjum og er fyrir vikið komið á bólakaf í fallbaráttuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×