Innlent

Makríll aldrei mælst jafn mikill

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hafrannsóknaskipið árni friðriksson Tók þátt í leiðangri fiskifræðinga frá Íslandi, Færeyjum og Noregi.
Hafrannsóknaskipið árni friðriksson Tók þátt í leiðangri fiskifræðinga frá Íslandi, Færeyjum og Noregi. Fréttablaðið/GVA
Fiskifræðingar frá Færeyjum, Íslandi og Noregi telja um 8,8 milljónir tonna af makríl vera í Norðaustur-Atlantshafi. Þar af eru 1,5 milljón tonn eða rúm 17 prósent innan íslenskrar efnahagslögsögu.

Þetta er útkoman úr sameiginlegum leiðangri þessara þjóða til rannsókna á makríl fyrr í sumar.

Aldrei áður hefur mælst jafn mikið af makríl á heildarsvæðinu, en magn makríls innan íslenskrar lögsögu reyndist vera svipað og á síðasta ári.

Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun kemur fram að svæðið, sem kannað var í ár, var mun umfangsmeira en áður og kann það að skýra að einhverju leyti þá aukningu sem mældist á heildarmagninu.

Fjögur skip tóku þátt í leiðangrinum, eitt frá Íslandi, eitt frá Færeyjum og tvö frá Noregi.

Aldursgreiningar sýndu að 20 prósent makrílsins var úr árganginum frá 2010. Einnig voru áberandi árgangarnir frá 2006, 2007 og 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×