Innlent

Rax hunsaður og ljósmyndarar reiðir

Jakob Bjarnar skrifar
Rax. Ljósmyndurum þessa lands þykir freklega framhjá honum gengið við tilnefningar til bókmenntaverðlauna.
Rax. Ljósmyndurum þessa lands þykir freklega framhjá honum gengið við tilnefningar til bókmenntaverðlauna. GVA
Ragnar Axelsson ljósmyndari, Rax, var ekki tilnefndur til hinna Íslensku bókmenntaverðlauna og ríkir reiði og hneykslan meðal ljósmyndara landsins vegna þessa. Gullmiðanum var dreift í gær og þar er enginn Rax á blaði.

Víða má sjá undrun og reiði á netinu meðal ljósmyndara. Kjartan Þorbjörnsson, sem betur er þekktur sem Golli, ljósmyndari á Morgunblaðinu, er einn þeirra. Hann segir ljósmyndara furðu lostna. „Mér finnst þetta mjög skrítin staðreynd. Ragnar Axelsson hefur nú gefið út tvö meistarastykki með þriggja ára millibili. Veiðimenn norðursins kom út árið 2010 og nú Fjallaland; bækur sem hann hefur verið að vinna að í áratugi í ferðum sínum. Hann er besti heimildaljósmyndari sem við höfum átt og eigum, þetta eru bækur sem skora hátt og vekja mikla athygli í alþjóðlega ljósmyndageiranum, að hann sé ekki virtur viðlits af dómnefndunum. Hvorug bókin tilnefnd!“ segir Golli.

Golli segir þetta sýna að ljósmyndarar eru ekki í hávegum hafðir meðal menningarelítunnar.
Og hann sendir menningarelítunni tóninn: „Mér finnst þetta stórskrýtið. Sorgleg staðreynd. Sýnir álit listaelítunnar á ljósmyndun á Ísland. Ég held ég geti staðhæft að ef þessi meistari væri annars staðar en á Íslandi og væri að gefa út verk sín í Frakklandi, Skandinavíu, Bandaríkjunum ... þá væri á hreinu að verk hans væru í hávegum höfð af þarlendum menningarinnar mönnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×