Jose Mourinho, stjóri Chelsea, segir að Romelu Lukaku ætti að svara fyrir hvers vegna kappinn fór á láni til Everton. Guardian greinir frá þessu.
Lukaku hefur farið á kostum með Everton í deildinni líkt og með West Brom í fyrra. Margir hafa velt því fyrir sér hvort Belginn hefði ekki getað nýst Chelsea. Ekki síst í ljósi þess að Samuel Eto'o verður frá keppni næstu vikur vegna nárameiðsla.
Mourinho sagði á blaðamannafundi í dag að Lukaku ætti sjálfur að útskýra hvers vegna hann hélt á braut. Belginn hefði gaman af því að tala.
„Hann er ungur strákur. Það eina sem hann á eftir að útskýra fyrir almenningi er hvers vegna hann fór á láni,“ sagði Portúgalinn. Hann bætti við að hann hefði hvatt hann til þess að segja frá því síðast þegar þeir ræddust við.
Lukaku sagði sjálfur í viðtali við Daily Telegraph í síðasta mánuði að hann hafi verið óviss um stöðu sína hjá Chelsea. Því hefði hann haldið til Everton þar sem hann verður út leiktíðina.
„Við munum ekki kaupa nýjan framherja í janúar. Við munum spila út leiktíðina með Fernando (Torres), Samuel (Eto'o) og Demba (Ba). Enginn bætist við og enginn heldur á braut.“
