Innlent

Raggi Bjarna tekur lagið með karlakórum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ragnar Bjarnason syngur á stórtónleikum með Karlakór Grafavogs og Karlakór Rangæinga í Grafarvogskirkju í kvöld. Tónleikarnir bera yfirskriftina „Yfir bænum heima“ og í tilkynningu segir að það sé skírskotun til eins þeirra skemmtilegu laga sem flutt verða á tónleikunum.

„Það má búast við mikilli stemningu í Grafarvogskirkju þegar kórarnir tveir leggja saman krafta sína með hinum eina sanna Ragnari Bjarnasyni sem enn er í fullu fjöri – kominn fast að áttræðu,“ segir í tilkynningunni.

Karlakór Grafavogs stendur fyrir undirbúningi tónleikanna, en í honum eru yfir 30 söngmenn á öllum aldri og er þetta þriðja starfsár kórsins. Karlakór Rangæinga hefur starfað í meira en tvo áratugi og „er forfrægur og hefur gert garðinn frægan víða um land.“

„Ragnar Bjarnason er óþarft að kynna, en hann hefur átt greiðan aðgang að hjörtum tónelskra Íslendinga í tæp 60 ár.“

Íris Erlingsdóttir er stjórnandi Karlakórs Grafarvogs, en hún stofnaði kórinn árið 2011 og er það í fyrsta sinn sem karlakór er stofnaður af konu.

„Á efnisskránni verða lög úr ýmsum áttum, bæði innlend og erlend og verður léttleikinn hafður í fyrirrúmi. Píanóleik með Karlakór Grafarvogs annast Kjartan Valdemarsson, en útvarpsmaðurinn góðkunni, Þorgeir Ástvaldsson, leikur með Ragnari Bjarnasyni. Stjórnandi Karlakórs Rangæinga er Guðjón Halldór Óskarsson, en píanóleikari kórsins er Glódís Margrét Guðmundsdóttir.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 17:00 og verða miðar seldir við innganginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×