Innlent

Fara fram á hlé á aðgerðum í Kolgrafafirði

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Hörður/Pjetur
Landssamband smábátaeigenda hefur farið fram á að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, heimili ekki frekar aðgerðir til smölunar á síld í Kolgrafafirði eins og fram fóru í gær.

Að ekki verði veitt slík heimild fyrr en búið er að rannsaka hvaða áhrif höggbylgjur, sem myndast þegar hvellhettur eru sprengdar í sjó, hafi haft á síldina í Kolgrafafirði.

Í bréfi LS, sem Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, sendi sjávarútvegsráðherra í dag, segir að beiðnin sé sett fram í því skyni að ekki verði rasað um ráð fram þar sem nú þegar sé ljóst að hægt sé að smala síldinni með þessum hætti og súrefnisskortur muni ekki leiða síldina til dauða á næstu dögum.

Í bréfinu segir að enginn hafi fullyrt um að sprengingarnar hafi áhrif á síldina, aðrar en að reka hana í burtu. „Í tilkynningum aðgerðaaðila er sagt að knýiefni sem notuð eru við smölun síldarinnar í Kolgrafafirði séu afar veik og því lítil hætta á framangreindum afleiðingum.  Aðspurðir hafa þeir þó ekki geta fullyrt neitt í þeim efnum.“

Í frétt á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins segir að búið sé að ákveða að aðgerðum verði haldið áfram í dag og vísbendingar bendi til þess að aðgerðir gærdagsins hafi virkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×