Innlent

Háhraðalest milli Keflavíkur og Reykjavíkur kostar 106 milljarða

Höskuldur Kári Schram skrifar
Háhraðalest milli Keflavíkur og Reykjavíkur mun kosta 106 milljarða samkvæmt frumskýrslu samráðshóps sem hefur kannað kosti framkvæmdarinnar.

Skýrslan var kynnt á fundi borgarráðs Reykjavíkur í gær.  Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst veitir samráðshópnum forystu en hópurinn samanstendur af fasteignafélaginu Reitum, fyrirtækjasviði Landsbankans, verkfræðistofunni Eflu, Ístaki í samstarfi við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Ísavía, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Reykavíkurborg. Gert er ráð fyrir að fleiri hagsmunaaðilar muni bætast í hópinn á næstu vikum.

„Þessi hugmynd hefur verið skoðuð nokkrum sinnum áður. Það sem hefur hins vegar breyst á síðustu árum er tvennt. Annars vegar hafa orðið verulegar tækniframfarir í lestarsamgöngum hvað snertir háhraðalestir sem að gera ferðatíma mun styttri en áður. Hins vegar hafa orðið verulega breytingar á farþegafjöldi í Leifsstöð sem skapa ný skilyrði fyrir tekjustreymi í svona verkefni. Þannig að það þótti ástæða til að skoða málið og kanna hvort það sé raunhæft og hagkvæmt að ná háhraðatengingu á milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur,“ segir Runólfur Ágústsson.

Framkvæmdin kostar 106 milljarða að mati hópsins.

„Þetta er auðvitað mjög dýr framkvæmd. Þá er við það miðað að lestin fari frá Keflavíkurflugvelli að Hafnarfirði og þaðan neðanjarðar síðustu 11-12 km að miðborg Reykjavíkur,“ segir Runólfur.

Hópurinn áætlar að skila endanlegri skýrslu í janúar á næsta ári.

„Ef að allt gengur upp þá gæti þessari framkvæmd verið lokið upp úr 2020. Þá væri farþegafjöldi á bilinu 3-4 milljónir á ári,“ segir Runólfur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×