Innlent

Játaði á sig hatursglæp en óttast ekki afleiðingar vegna afglapa lögreglu

Óskar Bjarnason, sem játaði á sig að hafa tekið þátt í að hella rauðum vökva og dreifa svínshausum á lóð sem ætluð er undir mosku, verður kallaður til yfirheyrslu lögreglunnar eftir helgi.

Lögregla segist munu rannsaka málið sem hatursglæp og eru viðurlög við slíku fangelsi í allt að 2 ár.
Í 233. grein almennra hegningarlaga segir að hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ráðist opinberlega á mann eða hóp manna, til dæmis vegna trúar þeirra skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Rannsókn málsins virðist, í skásta falli, hafa verið, klúðursleg. Þá greindi Fréttablaðið frá því í dag að borgarstarfsmenn sem hreinsuðu lóðina hafi hent stórum hluta sönnunargagna í málinu fyrir framan lögregluna sem þar var að störfum.

Óskar segist, af þeim sökum, ekki hafa áhyggjur af framvindu mála.
„Hvað ætla þeir að koma með? Þeir hafa ekkert þeir eru búnir að henda sönnunargögnunum, sem þeir segja að hafi verið sönnunargögn. Þetta finnst allt á mynd en það finnast engin sönnunargögn," segir Óskar.

Lögreglufulltrúinn sem fréttastofa ræddi við í dag sagði glæpinn lítinn og saklausan og bar hann að jöfnu við andstöðu Vantrúarmanna við Þjóðkirkjuna.

Það sem liggur málinu því til grundvalllar eru upplýsingar sem fjölmiðlafólk hefur aflað síðustu daga. Fréttastofa lét Lögreglufulltrúa í té símanúmer og upplýsingar tengdar málinu í dag, eftir að játning Óskars kom fram á vísi. Lögreglufulltrúinn kvaðst þó ekki hafa tíma fyrir málið að svo stöddu en bað fréttamann um að skila því til hins grunaða, Óskars að hafa samband við sig eftir helgi.

Þess má geta að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri kvaðst ekki hafa heyrt neitt af þessu máli og vildi því ekki tjá sig við fréttastofu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.