Enski boltinn

Frábær fyrri hálfleikur nægði Manchester United

Mynd/NordicPhotos/Getty
Manchester United vann sinn fjórða leik í röð í öllum keppnum þegar liðið sótti þrjú stig á Craven Cottage í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. United vann þá 3-1 sigur á Fulham þar sem öll mörk liðsins komu á fyrstu 22 mínútunum.

Manchester United fór illa með Fulham í fyrri hálfleiknum en gaf eftir í seinni hálfleiknum sem kom ekki að sök enda staðan góð.  

Þetta var á endanum sannfærandi sigur og sá annar í röð í ensku úrvalsdeildinni sem ætti að létta brúnina á stuðningsmönnum United.

Wayne Rooney lagði upp fyrsta markið fyrir Antonio Valencia á 9. mínútu og skoraði síðan það þriðja sjálfur á 22. mínútu eftir frábæra sendingu Robin van Persie. Van Persie skoraði sjálfur í millitíðinni eftir stoðsendingu frá hinum unga Adnan Januzaj.

Manchester United sundurspilaði Fulham-liðið á fyrsta hálftíma leiksins en það var allt annað að sjá leikmenn Fulham í seinni hálfleiknum.

Alex Kačaniklić minnkaði muninn á 65. mínútu eftir sendingu frá Kieran Richardson en skotið hafði viðkomu í Wayne Rooney.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×