Innlent

Guðmundur Felix mátaði skurðarborðið

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Guðmundur Felix mátar sérútbúna skurðarborðið í Frakklandi. Með honum er besti vinur hans Helgi Guðbrandsson.
Guðmundur Felix mátar sérútbúna skurðarborðið í Frakklandi. Með honum er besti vinur hans Helgi Guðbrandsson.
„Það var bara verið að máta skurðarborðið fyrir aðgerðina, ég er ekki kominn í aðgerð,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson sem bíður eftir handaágræðslu í Frakklandi.

Guðmundur fór í dag á skurðdeild að máta sérútbúið skurðarborð fyrir aðgerðina sem Guðmundur segir að verði líklegast ekki fyrr en eftir áramót.

„Þetta er rosalega stórt batterí, menn eru bara á fullu hér að undirbúa aðgerðina og ég hitti endurhæfingarteymið eftir helgi sem mun taka á móti mér eftir aðgerðina,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi.

Guðmundur segir mátun skurðarborðsins í dag hafa snúist um að athuga hvort læknar hefðu nægt rými til að athafna sig, þeir þurfi að mæla hvort þeir komist að öxlunum enda verði aðgerðin fjölmenn og mjög löng. Þá verði púðar settir undir Guðmund þegar þar að kemur og læknar þurfa að geta hreyft hann til meðan á aðgerðinni stendur.

Guðmundur býr úti með móður sinni, en besti vinur hans, Helgi Guðbrandsson, hafi fór með honum á sjúkrahúsið í dag. Guðmundur Felix missti handleggina og slasaðist lífshættulega þegar hann fékk ellefu þúsund volta rafstraum í gegnum sig og féll átta metra niður á frosna jörð 12. janúar 1998.

„Það þarf aðeins að gefa mömmu smá frí,“ segir Guðmundur og bætir við með innilegri tilhlökkun: „„Ég er orðinn rosalega spenntur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×