Innlent

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks hefur áhyggjur af málafæð ríkisstjórnarinnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur áhyggjur af málafæð ríkisstjórnarinnar.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur áhyggjur af málafæð ríkisstjórnarinnar. mynd/anton brink
Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins tók undir áhyggjur Árna Páls Árnasonar formanns Samfylkingarinnar af málafæð stjórnarflokkanna á Alþingi. Árni lýsti áhyggjum sínum á þingfundi í dag.

„Forseti þingsins rakti í ræðu sinni við þingsetningu mikilvægi þess að mál kæmu snemma frá ríkisstjórninni til að vel tækist að vinna þau. Staðan er hins vegar sú að við verðum ekkert vör við mál frá ríkisstjórninni,“ sagði formaður Samfylkingarinnar.

Ef frá væru talin frumvörp eins og fjárlög og tekjuöflunarfrumvörp sem lagaskylda væri að leggja fram bæri ekkert á málum frá ríkisstjórninni. Í dag hefðu verið lögð 20 mál fyrir þingið sem öll væru fyrirspurninr frá þingmönnum eða svör við þeim.

Þá hefðu nefndarfundir fallið niður í sumum nefndum vegna verkefnaskorts. Í öðrum nefndum væru til meðferðar mál sem væru endurflutt frá fyrra þingi eða mál sem fælu í sér innleiðingar á EES-gerðum.

„Er það þá orðið svo nú,  að hin linnulitla aðlögun landsins að Evrópusambandinu er orðinn bjargvættur þessarar ríkisstjórnar og tryggir að hún hefur þó alla vega einhver mál til að leggja fram hér í þinginu,“ spurði Árni Páll.

Hann sagðist hafa af þessu áhyggjur og beindi því til  Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hvað væri til ráða við þessu verkleysi ríkisstjórnarinnar?

„Virðulegur forseti, við þessu hef ég bara einfalt svar: Ég deili áhyggjum Árna Páls Árnasonar yfir málafæð frá ríkisstjórninni,“ sagði Ragnheiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×