Innlent

„Spennt fyrir því að spila í fyrsta sinn í Hörpu“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Söngkonan Emilíana Torrini tekur þátt í Iceland Airwaves í ár, en hún hefur ekki komið fram á hátíðinni síðan hún var fyrst haldin árið 1999.

Þegar Emilíana spilaði síðast á Airwaveshátíðinni var plata hennar Love in the Time of Science nýkomin út. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, og Emilíana gefið út fimm plötur. Sú nýjasta, sem ber heitið Tookah, kom út í september síðastliðnum. Emilíana kom fram á Off Venue tónleikum á Kex hosteli í dag.

„Þetta er bara rosalega gaman þó ég sé alltaf aðeins meira stressuð að spila hérna heima en úti í heimi. Við höfum lengi ætlað að spila á hátíðinni en alltaf verið að gera eitthvað annað á þeim tíma sem hún er haldin. Þannig þetta var bara alveg frábær tímasetning, platan nýkomin út og svona,“ segir Emilíana.

Emilíana kemur fram í Norðurljósasal Hörpu á miðnætti í kvöld, en hún þetta veruður í fyrsta sinn sem hún spilar í þessu tónlistarhúsi okkar Íslendinga.

„Það verður mjög spennandi þar sem ég hef aldrei komið þarna inn, bara rétt svo inn á ganginn. Ég hlakka mikið til að spila þarna og sjá hvernig hljómurinn verður. Þetta er bara frábært,“segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×