Innlent

Björt framtíð fram um land allt

Jakob Bjarnar skrifar
Guðmundur Steingrímsson: Við skipum á stjórnarfundi nefnd, sem heitir Nefndin, og hún er uppstillingarnefnd.
Guðmundur Steingrímsson: Við skipum á stjórnarfundi nefnd, sem heitir Nefndin, og hún er uppstillingarnefnd. mynd/Stefán
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, segir að stillt verði upp á lista í komandi borgarstjórnarkosningum. Flokkurinn ætlar að bjóða fram um land allt.

Þegar Jón Gnarr borgarstjóri tilkynnti í gær að hann ætli ekki fram á ný þýddi það að Besti flokkurinn er fyrir bý sem slíkur og gengur inn í Bjarta framtíð. Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra, sækist eftir 1. sæti á lista Bjartrar framtíðar í komandi borgarstjórnarkosningum og Einar Örn Benediktsson vill setjast í það áttunda, sem hann segir baráttusætið.

Guðmundur Steingrímsson er formaður Bjartrar framtíðar. Hvernig hyggst flokkurinn haga sínum framboðsmálum?

„Eins og við gerðum fyrir framboðið á landsvísu. Við erum með einfaldan strúktúr í kringum þetta. Við skipum á stjórnarfundi nefnd, sem heitir Nefndin, og hún er uppstillingarnefnd. Hún tekur viðtal við fullt af fólki, heyrir í fólki og fólk meldar sig við hana. Svo gerir Nefndin tillögu að framboðslista og sú tillaga er lögð fyrir félagsfund eða stjórn eftir atvikum, samþykkt eða synjað. Þetta gekk mjög vel fyrir alþingiskosningarnar hjá Bjartri framtíð. Þetta er ákveðið form sem byggir á því að tala við fólk og heyra í fólki.“

Guðmundur segir þennan strúktúr verða við hafðan í borginni. Hann telur þetta, það að Besti flokkurinn gangi inn í Bjarta framtíð, ekki breyta eðli Bjartrar framtíðar.

„Nei, alls ekki. Það hefur verið mjög náið samstarf milli fólksins í Besta flokknum og Bjartrar framtíðar. Það er fólk í Besta flokknum ásamt öðru fólki sem hafði frumkvæði að því að stofna Bjarta framtíð. Það er í sjálfu sér bara verið að innsigla það góða samband allt saman. Eina sem breytti áætlunum Bjartrar framtíðar er ákvörðun sem tekin var á síðasta stjórnarfundi í vor; að bjóða fram á sveitarstjórnarstiginu. Við höfðum ekki gert út um það fyrr en það. Nú blasir það við sem skynsamlegt og gott skref og við erum að undirbúa það nú út um allt land.“

Hvenær var þér kunnugt um að Jón tæki þá ákvörðun sem hann svo tilkynnti um í gær?

„Seint. Eins og öllum. Jón tók sér góðan tíma í að hugsa þetta. Og maður veit aldrei almennilega hvað Jón ætlar að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×