Innlent

Reykurinn er eins og það sé sífellt verið að kveikja sinueld í garðinum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Logi Karlsson, ásamt fjölskyldu sinni.
Logi Karlsson, ásamt fjölskyldu sinni.
„Það liggur reykur hér yfir öllu, mismikill eftir því hver vindáttin er og þetta er svolítið eins og það sé sífellt verið að kveikja sinueld í garðinum hjá þér,“ segir Logi Karlsson, doktorsnemi í markaðsfræði við Háskólann í Wollongong í Ástralíu. Hann segir eldana þá verstu sem Ástralar hafa lent í 50-60 ár.

Ekkert lát virðist vera á eldunum sem eru í Suður Wales fylki. Logi segir að versti dagurinn verði á morgun samkvæmt veðurspám.

Hann segir stemmninguna í bænum vera dapra, en það eru eldar í um 30 kílómetra frá bænum sem hann býr í. Bændur í nágrenninu og aðrir sem eiga eitthvað undir eru hræddir en slökkviliðið hefur viðurkennt að ráða ekki neitt við neitt.

„Þegar maður sér slökkviliðsstjórann grátandi í kvöldfréttunum í sjónvarpinu þá skynjar maður alvarleika málsins. Þeir játa einfaldlega að þeir ráði ekki við þetta, enda hafa þeir aldrei lent í þessu á þessum skala áður,“ segir Logi.

Logi segir að á morgun eigi að bæta í vindinn þannig að eldurinn muni dreifast enn hraðar þó það hafi samt verið nokkuð hvasst undanfarna daga. Hann segir hitann á svæðinu hafa verið um 30 gráður en einhver hitalækkun sé í kortunum. Þá segir Logi að menn voni innilega að það fari fljótlega að rigna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×