Innlent

Sjálfstætt Skotland myndi vilja náið samband við Ísland

Heimir Már Pétursson skrifar
Leiðtogi Skoska Þjóðarflokksins á breska þinginu segir að samband Skota við Íslendinga verði mun betra en samband Breta og Íslendinga, ef Skotar samþykkja sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta ári. 

Angus Robertson er einlægur sjálfstæðissinni og vill sjá fána Skotlands blakta meðal fána annarra sjálfstæðra ríkja í heiminum. Hann situr á breska þinginu fyrir Skoska Þjóðarflokkinn sem nú er í meirihluta á skoska þinginu og hefur boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu í september á næsta ári um fullt sjálfstæði Skota.

„Þá yrðum við að fullu sjálfstætt ríki. Ég er mjög spenntur fyrir því. Ég get ekki beðið eftir því að Skotar verði á ný á meðal þjóða í Norður Evrópu. Það er áskorun hvernig við getum átt náið samstarf  við þjóðir eins og Ísland, Noreg og Danmörk  sem eiga við sömu áskoranir í umhverfis- efnhags- , félags og öryggismálum,“ segir Robertson.

Angus flutti erindi um framtíð Skotlands sem sjálfstæðs ríkis í Norræna húsinu í dag en í dag er um helmingur Skota óákveðinn í þessum efnum,   um fjórðungur á móti sjálfstæði og annar fjórðungur því fylgjandi.

„Við viljum gjarnan leggja okkar að mörkum í þeim áskorunum sem þjóðirnar glíma við í umhverfismálum og orkumálum  og þeim tækifærum sem eru í efnahagsmálum.  Við teljum okkur einnig hafa eitthvað fram að færa í öryggis- og varnarmálum þar sem við viljum leggja okkur fram,“ segir Robertson.

Þjóðarflokkurinn vill starfa áfram innan alþjóðastofnana eins og NATO og Evrópusabandsins en Angus telur að samband Skota og Íslendinga yrði mun betra en samband Íslendinga við Breta.

„Það eru allar ástæður til að ætla að samband sjálfstæðs Skotlands og Íslands verði mun betra en samband Íslands og Bretlands er í dag. Ég get ekki ímyndað mér að beita vinsamlega nágranna þjóð hryðjuverkalögum. Ég get heldur ekki ímyndað mér að vinsamleg nágrannaþjóð tæki ekki þátt í loftferðareftirliti á svæðinu, eins og Bretar hafa aldrei gert hér við land,“ sagði Angus Robertson þingmaður Skoska þjóðarflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×