Íslenski boltinn

Rúnar Páll samdi við Stjörnuna til þriggja ára

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar Páll á bekknum hjá Stjörnunni.
Rúnar Páll á bekknum hjá Stjörnunni. Mynd/Valli
Rúnar Páll Sigmundsson verður næsti þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu. Garðabæjarfélagið sendi frá sér tilkynningu þess efnis.

Rúnar Páll var hægri hönd Loga Ólafssonar síðastliðið sumar. Logi var látinn fara á dögunum eftir allsérstakan aðdraganda. Þannig leituðu Stjörnumenn að nýjum þjálfara, og fóru ekki í felur með það, án þess að Loga hefði verið sagt upp störfum.

Legið hefur fyrir í nokkra daga að Rúnar Páll myndi taki við liðinu eins og Fréttablaðið greindi frá en nú hefur það loks verið staðfest. Stjarnan hafnaði í þriðja sæti deildarinnar í sumar og komst í úrslitaleik bikarsins.

Rúnar Páll Sigmundsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Stjörnunnar um þjálfun meistaraflokks karla hjá félaginu.

Rúnar Páll er félaginu að góðu kunnur bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann var aðstoðarþjálfari hjá félaginu á nýliðinni leiktíð og gerði einnig 2. flokk félagsins að Íslandsmeisturum. Rúnar Páll hefur áður þjálfað meistaraflokk m.a. hjá HK og Levanger í Noregi. Rúnar Páll er hæfileikaríkur og vel menntaður þjálfari og er það mikið ánægjuefni að fá hann til starfans.

Það eru spennandi tímar framundan hjá Stjörnunni enda hefur góður árangur náðst á undanförnum árum. Markmiðið er að byggja enn frekar ofan á þann góða grunn sem er til staðar hjá félaginu. Félagið hefur metnað til að viðhalda sterkum leikmannahópi þannig að liðið festi sig í sessi sem eitt af toppliðunum á landinu. Þá er lögð áhersla á að vinna markvisst í að auka færni og getu yngri leikmanna þannig að sem flestir þeirra nái markmiðum sínum um að verða góðir knattspyrnumenn.  Rúnar Páll mun, ásamt sínu teymi, sinna þjálfun liðsins auk þess að leiða faglega uppbyggingu félagsins til næstu ára í samstarfi við stjórn og aðra þjálfara hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×