Íslenski boltinn

Logi: Þetta var allt saman hinn versti farsi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Logi Ólafsson
Logi Ólafsson mynd / valli
Logi Ólafsson, fyrrum þjálfari Stjörnunnar, var í viðtali við þáttinn Reitaboltinn á vefsíðunni 433.is nú fyrir hádegi þar sem hann talar um viðskilnað sinn við Garðbæinga og starfshætti forráðamanna félagsins.

,,Niðurstaðan núna er einhverskonar magalending. Þeir telja sig vera komnir með Heimi Hallgrímsson og vilja fá hann í staðinn fyrir mig. Síðan er það bara ekki raunin og þá voru málin gagnvart mér kominn í þann farveg að það var ekki aftur snúið. Ég held að þetta hafi allt saman verið hinn versti farsi og atburðarás sem fór úr böndum," sagði Logi í þættinum.

,,Ég kýs að setja þetta aftur fyrir mig og óska Rúnari til hamingju með starfið. Þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að Rúnar sé góður kostur fyrir umhverfið í Stjörnunni. Mér finnst Rúnar vera efnilegur þjálfari og drengur góður. Ég óska honum og liðinu alls hins besta. Ég hef fulla trú á að liðið geti gert góða hluti."

Aðspurður hvort ákveðnir leikmenn hefðu viljað losna við Loga sem þjálfar Stjörnunnar eða hvort þreyta væri kominn í leikmannahópinn vildi Logi ekki kannast við það.

,,Ég varð ekki var við það. Ef það er kominn þreyta í leikmannahóp sem skilar þessum árangri og það kemur í ljós hálfum mánuði eftir að mótið er búið þá átta ég mig ekki á slíkri aðferðafræði. Ég varð aldrei var við einhverja óánægju. Ég er samt ekki að halda því fram að allir hafi verið rosalega ánægðir með mig. Ég er ekki svo einfaldur og er með það mikla reynslu að ég veit að það er alltaf einhver óánægja."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×