Innlent

Fjölskylduhjálp sparar fyrir jólaaðstoð

Samúel Karl Ólason skrifar
Ásgerður Júlía Flosadóttir formaður FJölskylduhjálpar segir sárt að þurfa að vísa fólki frá.
Ásgerður Júlía Flosadóttir formaður FJölskylduhjálpar segir sárt að þurfa að vísa fólki frá. Mynd/GVA
Fólk sem leitaði aðstoðar hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Iðufelli í Breiðholti í gær þurfti frá að víkja eftir að hafa jafnvel beðið lengi í röð. Fólki sárnaði mikið og einstaklingur sem hringdi í Vísi sagði það hvergi hafa verið auglýst á gluggum. Einnig sárnaði honum að enginn hafi komið og sagt þeim hvernig á stæði fyrr en röðin kom að þeim.  „Fólk sem er að leita aðstoðar gerir það ekki af gamni sínu,“ sagði einn viðmælandi Vísis.

Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður Fjölskylduhjálpar Íslands segir ástæðu þess að fólki hafi verið vísað frá vera að safna verði fyrir jólaaðstoðinni í desember. Því hafi þau hætt að kaupa inn vörur og verði einungis með neyðaraðstoð í september og október. Á þessu ári hefur Fjölskylduhjálp ekki fengið styrk frá ríkinu.

„Auðvitað er þetta sárt, fólk er búið að ganga að okkur vísu í tíu ár. Þetta eru öryrkjar, eldri borgarar, fólk sem er komið á félagsþjónustuna og fleiri. Fólk hefur ekkert á milli handanna. Það eru einhverjir sem munu hringja á morgun og þá munum við athuga hver staðan er hjá okkur. Þannig að við erum með neyðaraðstoð alla daga. Ef við höfum eitthvað til að gefa látum við það að sjálfsögðu frá okkur. Það voru margir mjög sárir í dag og ég skil það mjög vel.“

„Fjölskylduhjálp hefur nú staðið vaktina í tíu ár og verið með mataraðstoð fyrir allt að 500 upp í 1.000 fjölskyldur á viku. Síðan bregður svo við að minna af fjármunum berast til okkar,“ segir Ásgerður. Fjölskylduhjálp kaupir um 80% af þeim mat sem er úthlutað.

„Að sjálfsögðu hefðum við viljað geta haldið áfram þessum dampi sem við höfum verið með í tíu ár. Nú þurfum við þó að gæta hófs í öllu og passa vel upp á hverja einustu krónu og þess vegna var ákveðið að hætta að mestu leyti að kaupa inn vörur fyrir október og nóvember. Vegna þess að nú þurfum við að safna í sarpinn til að eiga fyrir jólaaðstoðinni,“ segir Ásgerður.

„Það sem við höfum gert í september og október, það er ekki á heimasíðunni en við erum búin að segja það víða og setja inn á Facebook og fleira, er að við erum með neyðaraðstoðir alla virka daga frá eitt til sex upp í Iðufelli. Þeir sem þurfa aðstoð verða þó að hringja áður því við erum búin að tilkynna að síðustu stóru úthlutanir voru í lok september þegar við vorum með samanlagt þúsund fjölskyldur í Reykjavík og á Reykjanesi."

„Þetta er nú ástæðan en auðvitað var sárt að vísa fólki frá, við gátum engan veginn látið fólk sem hafði komið áður í október og fengið neyðaraðstoð, vegna þess að það voru aðrir sem voru að koma og höfðu ekki fengið neina aðstoð í mánuðinum,“ segir Ásgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×