Íslenski boltinn

Lárus Orri aftur heim í Þór og Sandor Matus samdi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lárus Orri Sigurðsson.
Lárus Orri Sigurðsson. Mynd/Daníel
Þórsarar tilkynntu það á heimasíðu sinni í kvöld að félagið væri búið að semja við nýjan aðstoðarþjálfara og nýjan markvörð fyrir átökin í Pepsi-deild karla næsta sumar. Aðstoðarþjálfarann þekkja allir Þórsarar en markvörðurinn kemur frá erkifjendunum í KA.

Lárus Orri Sigurðsson er kominn aftur heim í Þór og verður aðstoðarþjálfari Páls Viðars Gíslasonar. Lárus Orri þjálfaði Þór frá 2006 til 2010 og var einmitt aðalþjálfari Þórsliðsins áður en Páll Viðar tók við snemma sumars 2010.

Lárus Orri þjálfaði KF í 1. deildinni í sumar eftir að hafa farið með liðið upp úr 2. deildinni sumarið 2011. KF féll hinsvegar úr 1. deildinni í haust og Lárus Orri hætti með liðið.

Ungverski markvörðurinn Sandor Matus skrifaði jafnframt undir tveggja ára samning við Þór en hann hefur varið mark KA við góðan orðstír frá árinu 2004. Matus er ætlað að leysa marksmannsvandamál liðsins en bæði Joshua Wicks og Srdjan Rajkovic fengu á sig mörg skrautleg mörk síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×