Enski boltinn

Torres tryggði Chelsea sigur í stórleiknum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
NORDIC PHOTOS/GETTY
Chelsea lagði Manchester City 2-1 í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Fernando Torres tryggði Chelsea sigurinn á 90. mínútu eftir hrikaleg mistök hjá City.

Þjóðverjinn Andre Schürrle kom Chelsea yfir á 33. mínútu með skoti af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Fernando Torres og staðan 1-0 fyrir Chelsea í hálfleik.

Það tók City aðeins fjórar mínútur að jafna metin í seinni hálfleik. Sergio Agüero átti þá frábært skot sem Petr Cech var of seinn að bregðast við og boltinn söng í netinu.

Allt benti til þess liðin myndu sættast á skiptan hlut en rétt áður en klukkan sýndi 90 mínútur skallaði Matija Nastasic boltann yfir Joe Hart sem kom hlaupandi út úr marki City og Fernando Torres nýtti sér það, hljóp boltann uppi og skilaði í tómt netið. Fyrsta mark Torres á tímabilinu.

Chelsea er þar með komið í annað sæti deildarinnar en City er í sjöunda sæti eftir 9 umferðir.

Swansea og West Ham gerðu marklaust jafntefli í dag en gang leiksins má finna í miðstöð boltavaktarinnar hér á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×