Íslenski boltinn

Konan og barnið halda Kjartani Henry gangandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason, framherji KR-inga og besti leikmaður Pepsi-deildarinnar árið 2011, fór í aðgerð á hné í gær. Hann hefur lítið getað beitt sér á knattspyrnuvellinum í tæp tvö ár. Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Stöð 2, hitti KR-inginn Kjartan Henry Finnbogason í dag og tók við hann viðtal fyrir kvöldfréttir Stöðvar tvö.

Kjartan hefur verið að glíma við erfið meiðsli á hné sem hafa gert það að verkum að hann hefur verið hálfur maður frá því í júní 2012. Aðgerðin sem hann fór í í gær var ekki umflúin.

„Þetta byrjaði sakleysislega sem smá brjóskskemmdir sem ég held að allir knattspyrnumenn í dag séu með," sagði Kjartan Henry í viðtali við Gaupa.

„Nú er búið að styrkja það sem þurfti að styrkja. Mér leið samt ágætlega í sumar. Ég var alltaf með vökva í hnénu en lék tappa af mér reglulega og fékk líka nokkrar sterasprautur. Við háttuðum síðan bæði æfinga- og leikjaálagi eftir því sem ég gat. Ég fékk að spila einhverja leiki sem var mjög gaman," segir Kjartan Henry.

Kjartan Henry Finnbogason skoraði 3 mörk í 13 leikjum með KR í Pepsi-deildinni í ár en hann var aðeins í byrjunarliðinu í einum leik og kom því tólf sinnum inná sem varamaður. Kjartan náði því bara að spila í samtals 311 mínútur í Pepsi-deildinni í sumar.

„Auðvitað komu dagar þar sem maður spurði: Af hverju ég? Það hjálpar manni ekki neitt. Ég er með svakalega góða fjölskyldu, konu og barn í kringum mig og þau halda mér gangandi," sagði Kjartan Henry.  Hann sér fram á betri tíma og ætlar sér að snúa aftur á völlinn sem fyrst.

Kjartan Henry hefur alls skorað 33 mörk í efstu deild fyrir KR og er níundi markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Hann skoraði 12 mörk í Pepsi-deildinni 2011 þegar hann spilaði sitt síðasta tímabil fullfrískur.

Það er hægt að sjá allt innslagið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×