Innlent

Nýfarinn frá foreldrum sínum með átta mánaða gamalt barn sitt þegar sprengingin varð

Elimar Hauksson skrifar
Fjölmennt lögreglu- og sjúkralið kom á staðinn í dag en ljósmyndari sunnlenska tók þessa mynd af vettvangi í Hveragerði.
Fjölmennt lögreglu- og sjúkralið kom á staðinn í dag en ljósmyndari sunnlenska tók þessa mynd af vettvangi í Hveragerði. mynd/sunnlenska
Hafþór Örn Stefánsson, sonur hjónanna sem lentu í etanól-sprengingunni í Hveragerði í dag, segist hafa verið nýfarinn frá foreldrum sínum þegar sprengingin varð. Sjö manns voru í húsinu þegar etanól arinn sprakk eins og frá var greint á Vísi fyrr í dag. 

„Ég var nýkominn heim til bróður míns. Ég og konan mín höfðum verið í heimsókn hjá foreldrum mínum með átta mánaða gamalt barn okkar. Ég heyrði í sjúkrabílum og lögreglubílum keyra hérna inn næstu götu og sé að þeir eru allir hjá húsi foreldra minna. Þegar ég kom þangað var allur eldurinn slokknaður en fólkið leit ekki vel út. Það var mikið stress og hræðsla í húsinu,“ segir Hafþór.

Aðspurður um gerð arinsins sagðist Hafþór ekki vera viss en að hann hafi nýlega verið settur upp og notaður nokkrum sinnum án þess að nokkuð hafi verið að.

„Þetta eru þrír hólkar sem etanólinu er hellt ofan í. Ég las í lögregluskýrslunni áðan að þeir telja að það hafi lekið etanól framhjá og síðan myndast gas þegar það hitnaði undir hólkunum. Þeir sprungu síðan upp og etanólið fór yfir allt fólkið,“ segir Hafþór.

Hann segir rannsóknarlögreglumenn hafa komið og fjarlægt arininn sem olli sprengingunni og nú sé beðið eftir hreingerningarteymi frá tryggingafélagi foreldra hans. Hann segir fólki brugðið en að þetta sé allt að koma til.

„Ég heyrði í föður mínum áðan og þetta er allt að róast. Þau sem fóru til aðhlynningar á Selfoss fá líklega að koma heim í kvöld en bróðir minn og sonur hans hlutu annars stigs bruna og þeir verða eitthvað áfram á spítalanum í Reykjavík,“ segir Hafþór.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×